Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 14:50:04 (2376)

1997-12-16 14:50:04# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, SighB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[14:50]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að víkja að nokkrum efnisatriðum í frv. og þá fyrst að því sem segir í fylgiskjali frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. að frv. snúi ekki að breytingum á tekjuskatti og eignarskatti lögaðila og því sé ekki gert ráð fyrir að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Þetta er alveg rétt. En það hefði verið mjög gott að fá sem fskj. frá tekjuskrifstofu fjmrn. nokkur orð um það hvað þetta þýðir varðandi tekjuhlið fjárlagafrv. Mér er fyllilega ljóst að erfitt er að spá um fjárhæðir í því efni en engu að síður væri hægt og er nauðsynlegt í fskj. með frv. að skýra lítið eitt út þau tekjulegu áhrif sem verða af breytingunni.

Í fyrsta lagi er verið að gera ráð fyrir því eins og komið hefur fram að frv. nái aðeins til þeirrar aflahlutdeildar sem gengur kaupum og sölum en ekki til þeirrar aflahlutdeildar sem viðkomandi fær úthlutað ókeypis frá almannavaldinu án þess að selja það öðrum. Gert er ráð fyrir því að slík aflahlutdeild verði óafskrifanleg og færist sem eign í reikninga viðkomandi fyrirtækis sem keypt hefur aflahlutdeildina. Það er sem sé gert ráð fyrir því að að hámarki verði greiddur eignarskattur til ríkisins af slíkri aflahlutdeild sem nemur 1,2% af kaupverðinu, þ.e. menn eru að tala um eignarskatt upp á um 1,2 millj. af aflahlutdeild sem keypt hefur verið á 100 millj. kr. og þessi skattheimta nær aðeins til aflahlutdeilda sem hafa gengið kaupum og sölum. Nauðsynlegt er að þetta komi fram til þess að menn geri sér það ljóst að hér eru engar stórar fjárhæðir á ferðinni. Þarna eru fjárhæðir sem gætu numið einhverjum tugum millj. kr. á ári í tekjur fyrir ríkissjóð þannig að ekki er verið að taka neitt skref í líkingu við það sem rætt hefur verið um ætlað afgjald fyrir veiðigjald eða veiðileyfagjald. Þarna er um að ræða tiltölulega lágar fjárhæðir í tekjuöflun fyrir ríkissjóð, a.m.k. eins og sakir standa.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að þó árlegar afskriftir verði ekki heimilaðar af aflahlutdeild sem fyrirtæki hafi keypt verði þær heimilaðar í einu vetfangi á sama andartaki og lögunum um stjórn fiskveiða verður breytt með þeim hætti að keypt aflahlutdeild heldur ekki verðmæti sínu. Gert er ráð fyrir því í a-lið 2. gr. frv. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Þó skal heimilt að telja til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. verðmæti þessara réttinda ef þau falla niður.``

Með öðrum orðum, á sama andartaki sem tekin er ákvörðun hér á Alþingi um að breyta stjórnkerfi fiskveiða í þá veru að þau réttindi sem nú ganga kaupum og sölum eru ekki lengur verðmæti, geta þau fyrirtæki sem hafa keypt sér aflahlutdeildir afskrifað þær á einni nóttu, fært til gjalda í reikningum sínum á sama ári og þær eru niður felldar sem verður þá að sjálfsögðu til þess að lækka tekjuskattsgreiðslur þeirra til ríkissjóðs sem því svarar. Tekjuöflunin sem gert er ráð fyrir, verði þetta frv. að lögum, fyrir ríkið eru því í fyrsta lagi tiltölulega lágar fjárhæðir miðað við þau miklu verðmæti sem í aflakvótunum felast. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að viðkomandi fyrirtæki geti afskrifað eignirnar að fullu á sama andartaki og lögunum um stjórn fiskveiða verði breytt með þeim hætti að aflahlutdeildin missi verðgildi sitt. Ég held að nauðsynlegt sé að þetta komi fram svo að menn geri sér grein fyrir því hvaða áhrif frv. hefur á tekjuhlið fjárlaga annars vegar og hvaða áhrif það muni hafa verði stjórnkerfinu breytt einhvern tíma í framtíðinni hins vegar.

Í greinargerð frv. er vikið að ástæðum þess að frv. er flutt og þær eru merkilegar ef þær eru skoðaðar nánar. Í upphafi athugasemdanna er tekið fram að frv. megi rekja til dóms Hæstaréttar 18. nóv. 1993, í máli Hrannar hf. gegn fjmrh. Nú er mörgum sú niðurstaða Hæstaréttar í fersku minni og þó ég ætli ekki að deila við dómarana er hún vissulega aðfinnsluverð, þ.e. þar sem gengið er út frá því að afnotarétturinn sem menn kaupa verði afskrifaður á aðeins fimm árum vegna þess hversu mikið óöryggi sé í framtíð þeirra verðmæta eða verðgilda sem menn eignast með kaupum á varanlegum aflaheimildum, eins og Hæstiréttur láti sér ekki til hugar koma að sú áhætta sem í því felst að kaupa sér aflaheimildir sem munu ekki vara um aldur og ævi komi einfaldlega fram í verðlagningu markaðarsins á þeim réttindum. Það er mjög undarlegt eins og þessi dómur sætti mikilli gagnrýni sem kveðinn var upp árið 1993 að það er ekki fyrr en nú, næstum því fimm árum síðar, sem fjmrn. grípur til þeirra aðgerða sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Það er líka mjög athyglisvert að það er ekki fjmrn., sem fannst þetta mjög óeðlilegur úrskurður á sínum tíma, sem á frumkvæðið að því að málið sé tekið upp og skoðað á nýjan leik, heldur er það sjútvrn. árið 1996 sem beinir þeim tilmælum til fjmrn. að skoða þetta. Það er með öðrum orðum sjútvrn. sem á frumkvæði að því að taka á málinu en ekki hæstv. fjmrh. og fjmrn. Hvers vegna skyldi það vera að sjútvrn. grípur til þessara ráða árið 1996? Skyldi það ekki vera vegna þess að hæstv. sjútvrh. er orðið ljóst að sú mikla gagnrýni sem á sér stað á ókeypis úthlutun íslenska ríkisins á verðmætum atvinnuréttindum til nokkurra einstaklinga er farin að sæta mikilli gagnrýni og hann ætlar með einhverjum hætti að reyna að leiða þá flóðbylgju hjá sér með því að opna smuguna fyrir því að örfáar milljónir eða milljónatugir verði borgaðir í skatt fyrir þau aflaverðmæti ein sem hafa gengið kaupum og sölum milli útgerða en að þorri aflaheimilda sem úthlutað er ókeypis og nýttur af viðkomandi útgerðum sé áfram óskattlagður og án gjaldtöku frá þeim sem verðmætunum ráðstafa? Það er a.m.k. harla undarlegt miðað við viðbrögð fjmrn. eftir dóminn 1993 og almenningsálitið á þeim dómi að það skuli ekki vera fyrr en fyrst nú sem á því máli er tekið.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt eins og fram kemur í frv. að taka sérstaklega fram hvað gera skuli ef lögunum um stjórn fiskveiða verður breytt þannig að kaup og sala aflaheimilda milli einstaklinga eins og við þekkjum hana í dag verður annaðhvort afnumin eða á henni haldið með þeim hætti að hún missi verðgildi sitt. Nauðsynlegt er að taka það fram eins og gert er í 2. gr. frv. síðasta málslið eins og ég tók fram áðan og það er þakkarvert. Vegna þeirra ummæla sem hafa fallið hjá hv. þm. Ágúst Einarssyni og eru rétt að menn óttast að eftir því sem núgildandi kerfi er lengur við lýði, eftir því sem fleiri ár líða þar sem menn umgangast veiðiréttindin eins og almenna eign, er hætta á því að ákvæði stjórnarskárinnar um verndun ekki einkaeignarréttar heldur atvinnuréttinda nái einnig til verndunar yfir þeim réttindum sem fást með kaupi veiðiheimilda. Þetta er alveg rétt. Þess vegna væri ástæða til þess í fyrsta lagi að athuga hvort ætti ekki að setja inn í textann í frv. sjálfu ákvæði þess efnis eins og eru í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða til viðbótar við það ákvæði sem er í lok 2. gr. að heimild til ráðstöfunar og afnota á úthlutuðum eða keyptum aflaréttindum myndi ekki stjórnarskárbundna lögvernd á atvinnuréttindum. Í þeim efnum skiptir mjög miklu máli hvað sagt er og skrifað í þinginu, ekki síst þegar litið er til orða þess hæstv. ráðherra sem mælir fyrir um málið. Þess vegna vil ég óska eftir því við hæstv. fjmrh. að hann staðfesti einfaldlega þann skilning í andsvari sem ég vona að sé sameiginlegur með okkur að þetta frv. sé ekki flutt og sé ekki ætlað að hafa áhrif á stjórnarskrárbundinn rétt sem menn kunna hafa til atvinnuréttinda, þ.e. með flutningi frv. sé ekki tilætlun frsm. og flytjanda hæstv. fjmrh. að verið sé að styrkja þau réttindi til atvinnu sem stjórnarskráin veitir. Það mun greiða fyrir því og hjálpa til þess að frv. verði ekki túlkað með þeim hætti og nauðsynlegt er að sú túlkun komi fram.

[15:00]

Herra forseti. Í þessum ákvæðum er vísað til þess og reynt að taka á því vandamáli hvaða áhrif frv. kann að hafa á viðskipti með skip og kvóta. Eins og nú standa sakir er alþekkt að þegar keypt er skip með kvóta þar sem kvótinn er afskrifaður miklu hraðar en skipið, þá vilja menn gjarnan færa til bókar hjá sér slík kaup þannig að kvótinn sé metinn eins hár hluti kaupverðsins og unnt er og skipið eins lágur hluti kaupverðsins og unnt er til þess að geta afskrifað þann hluta kaupverðsins sem kvótinn er metinn á sem allra hraðast. Nú er verið að snúa dæminu við þannig að kvótinn verður ekki afskrifaður en heimilt er hins vegar að afskrifa skipið. Þá er líklegt að menn snúi við túlkun sinni og vilji gjarnan meta skipið sem hærra hlutfall kaupverðs en kvótann vegna þess að skipið geta menn afskrifað en kvótann ekki. Gert er ráð fyrir því og vísað til þess í greinargerð með frv. að á þessu verði tekið samkvæmt almennum ákvæðum skattalaga þannig að skattstjórar og skattyfirvöld hafi ávallt heimild til þess að meta slík viðskipti með hliðsjón af markaði hverju sinni. En ég spyr líka hæstv. fjmrh. að því og vek athygli á því að mjög erfitt er að framkvæma slíkt mat og t.d. hefur það ekki verið notað til þess að halda aftur af tilhneigingu þeirra sem kaupa kvóta, að meta kvótann hátt og skipið lágt vegna afskriftaþarfar. Þess vegna er hætt við að það sama komi upp á teningnum þegar menn snúa við og breyta vegna áhrifa þessa frv. Engu að síður spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki væri ástæða til þess að setja inn í frv. þetta setningu sem vísaði til þess að svona skuli á málum haldið jafnvel þó svo að almenn ákvæði séu í skattalögum sem gera ráð fyrir því að svo skuli fara með málið þá er kannski enn skýrara að skjóta jákvæðu ákvæði þar inn í frv. áður en það verður afgreitt sem lög.

Ég vil hins vegar benda á að í frv. eru atriði sem stangast á við það sem nú er verið að gera á Alþingi. Gert ráð fyrir því ef ég man rétt að rúmmetraréttindi sem útgerðarmaður kunni að eiga skuli fyrna með sama hætti og fiskiskipið sjálft. Með þessu er átt við að útgerðarmaður sem hefur keypt skip telst eiga ákveðinn rétt til endurnýjunar miðað við rúmlestatölu skipsins og gert er ráð fyrir því í frv. hæstv. fjmrh. að sá réttur sé afskrifaður með sama hætti og skipið sjálft. Fyrir Alþingi liggja hins vegar breytingartillögur frá meiri hluta sjútvn. við lög um stjórn fiskveiða þar sem segir svo, með leyfi forseta, um að 5. efnismgr. frv. orðist þannig:

,,Rúmmetrar sem ekki nýtast við flutning veiðileyfa milli skipa eða vegna stækkana falla niður.``

Með öðrum orðum, þær teljast ekki lengur eign ef þær hafa ekki verið nýttar. Það stangast að sjálfsögðu á við þau ákvæði í frv. að slík eign skuli afskrifast með sama hætti og skipið sem réttindin eru bundin við. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það sé réttur skilningur hjá mér að svo sé. Það getur vel verið, þetta eru nokkuð flókin mál, að málin standi með einhverjum öðrum hætti en þetta en mér skilst málin standi svo og vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þetta sé ekki réttur skilningur, þ.e. ef rúmmetrarétturinn er ónýttur við stækkun skips og fellur niður, getur hann að sjálfsögðu ekki eignfært sér reikning viðkomandi útgerðarfyrirtækis og afskrifast svo með sama hætti og skipið er afskrifað sem útgerðarmaðurinn á.

Meginatriði málsins eru hins vegar þau viðvörunarorð sem hv. þm. Ágúst Einarsson vék að áðan, þ.e. er líklegt að frv. festi í sessi þann rétt, atvinnurétt sem stjórnarskráin ver fyrir mönnum þannig að eftir samþykki þess verði erfiðara að gera breytingar á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi en er í dag, þ.e. menn geti þá gert bótakröfu í því sambandi. Auðvitað ber að skoða þau mál í meðförum nefndarinnar en ég vil að tekin séu af öll tvímæli um afstöðu ráðherra og flutningsmanns málsins til þess með því að óska eftir því að hann taki fram á eftir hver tilætlun hans sé hvað þennan þátt varðar með flutningi málsins. Er tilætlun hans sú að það beri að túlka frv. sem svo að verið sé að festa réttindi þau sem menn hafa í dag samkvæmt núgildandi stjórnunarkerfi til fiskveiða, þ.e. aflakvótakerfinu? Er frv. flutt til að festa það í sessi eða lítur ráðherra svo á að samþykkt frv. eigi engin áhrif þar á að hafa þannig að Alþingi hafi jafnfrjálsar hendur og það hefur í dag til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu án þess að þeir aðilar sem njóta góðs af því í dag geti gert nokkrar kröfur um bótagreiðslur sér til handa verði það stýrikerfi afnumið?