Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:11:33 (2378)

1997-12-16 15:11:33# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:11]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar hæstv. ráðherra var mjög skýrt. Í fyrsta lagi bendir hann réttilega á að ekki er verið að taka þá ákvörðun að eignfæra skuli keyptar veiðiheimildir. Sú ákvörðun var tekin af Hæstarétti árið 1993 þannig að með engum hætti er verið að auka við það eða breyta þeirri ákvörðun. Hins vegar er verið að gera það eitt að afnema þá heimild sem hæstaréttardómurinn veitti til þess að afskrifa þessi réttindi um 20% á ári þannig að ekki er verið að ,,færa`` útgerðarmönnum neina eign sem þeir geta ekki eignfært í bókhald sitt í dag. Það er ekki verið að gefa þeim neitt sem þeim hefur ekki þegar verið gefið ef svo má segja. Með þessu tók hæstv. ráðherra af öll tvímæli um það að ekki er verið að styrkja eignarréttarkröfu útgerðarmanna á veiðiréttindum.

Í öðru lagi vil ég aðeins segja um það sem hann sagði síðast um áhrif á tekjur ríkissjóðs. Ég var ekki að óska eftir því að menn reyndu að meta það í fjárhæðum heldur að þeir gerðu sér grein fyrir því í fyrsta lagi hvað um er að ræða tiltölulega litlar upphæðir sem má gera ráð fyrir að eignarskattur á keypta aflahlutdeild geti skilað, að menn geri sér grein fyrir því að þarna er verið að tala um tugi milljóna en ekki hundruð, hvað þá milljarða. Og að blanda því saman við veiðileyfagjald er út í hött. Hins vegar vil ég benda á að jafnframt er verið að veita útgerðarmönnum réttindi til þess að afskrifa allar þessar eignir og færa þær síðan til gjalda og lækka sína skatta til ríkisins á sama andartaki og stjórnkerfi fiskveiða verður breytt.