Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:13:51 (2379)

1997-12-16 15:13:51# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:13]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. sagði. Ég held að hann hafi fyllilega skilið orð mín enda voru þau ekki um annað en fyrirliggjandi staðreyndir í máli sem menn þekkja og hafa þekkt frá því 1993.

Síðan verður að segja frá því að dómurinn þá byggðist á því að í þeim lögum væri ekki að finna ákvæði sem kveða berum orðum á um skattalega meðferð veiðiheimilda. Þetta var það sem dómurinn sagði á þeim tíma. Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að bæta svo frekar við í þessu andsvari en vil geta þess þó að það er ekki eingöngu verið að ræða um eignarskatt vegna þess að þótt það liggi nú fyrir að telja eigi þessi réttindi, þennan aflakvóta, til eignar samkvæmt lögunum, þá er það engin breyting frá því sem verið hefur. Það sem hins vegar skiptir máli er að nú er ekki heimilt að færa til gjalda afskriftir og lækka þannig hreinar tekjur fyrirtækisins. Þetta hefur því óhjákvæmilega áhrif á tekjuskattinn líka og það skiptir að sjálfsögðu máli þótt ég hafi ekki á hraðbergi hve miklu máli það skiptir í fjármunum talið.