Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:15:35 (2380)

1997-12-16 15:15:35# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:15]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega hefur þetta áhrif á tekjuskatt útgerðarfyrirtækja í landinu sem samanlagt borga hvorki meira né minna en 236 milljónir í skatta til ríkisins, álíka fjárhæð og starfsmenn Ríkisútvarpsins, meira er það nú ekki. Þetta ætti ekki að hafa mikil áhrif á tekjuskatta þeirra fyrirtækja sem geta þó skilað 5 milljörðum kr., að því er vísir menn segja, í tekjur umfram kostnað við veiðarnar en borga aðeins 230 millj. kr. í opinber gjöld til ríkisins þrátt fyrir þá góðu stöðu (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu vegna þess að þau ,,njóta`` ef svo má segja, mikils uppsafnaðs taps sem þau verða auðvitað að jafna áður en góð afkoma þeirra skilar sér í verulegum tekjum til ríkissjóðs. Þetta mun einnig hafa áhrif á tekjuskattsgreiðslur útgerðarinnar en ég held að menn geti talið þær í milljónum fremur en tugum milljóna, a.m.k. þangað til hið mikla uppsafnaða tap útgerðarfyrirtækja hefur að mestu verið greitt niður af rekstrarhagnaði.