Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:17:38 (2381)

1997-12-16 15:17:38# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að segja að ég tel það eðlilegt skattalegt fyrirkomulag að keyptur nýtingarréttur að hvers kyns varanlegum náttúrugæðum, endurnýjanlegum auðlindum, fiskstofnum eða öðru slíku, sé ófyrnanleg eign. Ég held að svo fremi sem menn hafi trú á að náttúruauðlindir eða náttúrugæði séu varanleg þá séu þau eðli málsins samkvæmt ófyrnanleg.

Ég minni frumkvæði hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í þessum efnum, en hann hefur í tvígang flutt frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt þar sem lögð er til sambærileg efnisleg skipan og hér er lögð fyrir í stjórnarfrv. Eftir langa og tafsama fæðingu hjá hæstv. ríkisstjórn hefur starfshópi, ráðuneyti og öðrum sem að málinu hafa komið tekist að koma þessari efnisreglu saman í frumvarp en hún hefur sem sagt legið fyrir þinginu í tvígang, í frumvarpsformi frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Að sjálfsögðu má ræða ýmsar mismunandi leiðir hvað fyrirkomulag snertir og tekjuskattslöggjöfin er því miður ekki orðin svo einföld að það sé augljóst með hvaða hætti er best að koma þessu inn í lögin. Það held ég að þeir mundu sannfærast um sem reyndu að átta sig á því hvernig t.d. þarf tæknilega að færa breytingar af þessu tagi í búning. Það er ekki einfalt.

Að öðru leyti vil ég, herra forseti, koma aðeins inn á að þó þessi breyting sé gerð á skattalegri meðferð veiðiréttar sem er keyptur eða seldur, þá er málinu langt í frá lokið að mínu mati. Eftir er að taka á því sem lýtur að skattlagningarreglunni sjálfri, þ.e. hvernig skattleggja skuli sérstakan söluhagnað sem myndast vegna þessa kerfis. Ég tel með öðrum orðum sjálfsagt mál að um sérstaka skattareglu sé að ræða ef mikill og óvæntur söluhagnaður myndast vegna framsals eða hreyfingar þessara réttinda milli manna og það er einfaldlega vegna þess að hér er um fiskveiðistjórnarkerfi að ræða. Því kerfi var aldrei ætlað að skapa einstökum aðilum mikinn gróða þó menn sæju ekki aðra vænlegri aðferð til að láta kerfið ganga upp en að hreyfanleiki yrði á réttindunum milli einstakra útgerðaraðila og fyrirtækja. Eðlilegra er að líta á hagnað sem myndast sem hliðarverkanir eða aukaverkanir í kerfinu sem eðlilegt sé að taka á. Það verður vonandi aldrei frumforsenda að nýta fyrirkomulag sem sett er upp til að vernda fiskstofna og tryggja skynsamlega nýtingu náttúruauðlindanna sem gullgerðarvél.

Ég vil því leyfa mér, herra forseti, í tengslum við þetta mál að vísa til annars frumvarps sem liggur fyrir þinginu á þskj. 330. Það er frv. til laga um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum, flutt af hv. þm. Ragnari Arnalds og Hjörleifi Guttormssyni ásamt þeim sem hér talar. Í III. kafla þess frv., sem reyndar er bandormur að gerð, er einmitt komið inn á skattalega meðferð réttinda af því tagi sem hér um ræðir. Þar er lagt til að sú regla gildi að um brúttóskattlagningu söluhagnaðar veiðiréttinda verði að ræða. Þau réttindi verði jafnframt ófyrnanleg og slíkur söluhagnaður skuli allur teljast til tekna á söluári og koma til skattlagningar. Þá verði brúttóskattur af slíkum söluhagnaði, án tillits til skattgreiðslna viðkomandi fyrirtækis að öðru leyti, 50% eða um helmingur söluhagnaðarins verði þá gerður upptækur. Menn ættu að sjá að ef svo háttar til að sama fyrirtækið greiðir jafnframt tekjuskatt af hagnaði þá bætast þar við þau 33% sem fyrirtækin borga af skattskyldum hagnaði sínum í tekjuskatt og þá er orðið um verulega skattlagningu eða upptekt á þeim söluhagnaði að ræða. Ég tel það eðlilega skattareglu vegna hinna sérstöku aðstæðna sem gilda í þessum efnum. Í þeim tilvikum sem fyrirtækin hafa bærilega afkomu og eru ekki að jafna upp eldri töp þá sé slíkur hagnaður að langmestu leyti gerður upptækur.

Að auki yrði sett sú regla að viðskipti með aflahlutdeild færu ætíð fram og gætu eingöngu farið fram á viðurkenndu kaupþingi eða markaði. Öll þau viðskipti væru á yfirborðinu og væru ótengd viðskiptum með skip. Hægt væri með ekki flóknari breytingum en lagðar eru til í þessu stjórnarfrv., í efnislega samhljóða frv. sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur lagt til og með því frv. sem ég er að vísa til að ná utan um þau vandamál í aðalatriðum sem tengjast framsali einstakra aðila á veiðiréttindum og gróða af því.

Í mínum huga, herra forseti, er langríkasta ástæða hinnar megnu óánægju sem grasserar í þjóðfélaginu um hliðarverkanir þessa fiskveiðistjórnarkerfis sú staðreynd að einstöku aðilar hafa, vegna þessara sérstöku ástæðna og vegna þessa kerfis, átt þess kost að hætta starfsemi í sjávarútvegi og selja afnotarétt sinn eða aðstöðu með því sem hlýtur að teljast óvenjulegur og óeðlilegur söluhagnaður. Sá hagnaður er tilkominn vegna takmörkunar kerfisins sem slíks. Það eru hliðarverkanir á sem að sjálfsögðu á að uppræta. Það er hægt að gera með umræddum skattbreytingum. Ég er sannfærður um það. Og ég á satt best að segja ekki von á öðru en að menn fáist í framhaldi af þessu stjfrv. til þess að ljúka málinu með því að taka á þeim endanum sem eftir er og það er skattlagning hagnaðarins, af þeim réttindum sem hér er verið að leggja til að verði ekki fyrnanleg í bókhaldi fyrirtækjanna.

Að sjálfsögðu, herra forseti, hefði langeðlilegasta afgreiðslan verið að öll þessi frv. fengju að fara samtímis til umræðu og nefndar. Þannig hefði þingnefnd haft aðstöðu til að fara yfir þetta mál í heild sinni. Nú skal ég ekkert um það segja hver niðurstaðan úr vinnu þingnefndar verður en eins og venjulega hafa stjfrv. forgang svo sérkennilegt sem það er þegar fyrir liggja þingmannafrv. um sömu mál með lægra þingnúmeri. Náttúrlega mætti spyrja sig að því hvers konar þingræði það sé að eftir sem áður skuli stjfrv. keyrð fram úr. Takist ekki að láta öll þessi mál verða samferða nú og hv. þm. fjalla um alla þætti málsins í einu þá er það a.m.k. eindregin von mín og ósk að þessu þingi ljúki ekki án þess að Alþingi taki þetta mál fyrir í heild og skoði hver sé skynsamleg skattaregla í þessu máli, ekki bara hvað ófyrnanleg réttindi varðar, heldur einnig sjálfa skattlagninguna, skattprósentuna eða skattgreiðslur vegna söluhagnaðar af viðskiptum með þessi afar sérstöku réttindi eða þá sérstöku aðstöðu sem menn fá þarna í raun og veru í hendur.

Herra forseti. Ég styð efnislega breytingu á skattalegu fyrirkomulagi þessara mála í þá átt sem lagt er til í stjfrv. Að sjálfsögðu eru mörg álitamál sem tengja má við þetta efni og mér skilst að gert hafi verið talsvert hér í umræðunni. Ég lít á málið sem skattalegs eðlis og tel það ekki endilega skýra umræður eða nálgast málið á efnislegri hátt að blanda öðrum málum í það. Fram hefur komið að ætlunin er eingöngu að leiða til lykta ákveðin skattaleg atriði þessa máls. Annað er ekki á dagskrá og ég tel að það sé þá eðlilegt að beina vinnunni að því og vanda eins og kostur er. Ég treysti því að þetta þing bregðist ekki þeirri skyldu skyldu sinni að fylgja þessu máli eftir og ganga þannig frá skattalegum atriðum í tengslum við framsal veiðiréttinda eða afnotaréttar af því tagi sem hér um ræðir, að til frambúðar verði og rækilega frá því gengið.