Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:51:09 (2384)

1997-12-16 15:51:09# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:51]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki oft sem gera þarf hlé á þingstörfum til að hreinsa upp brotin eftir hæstv. fjmrh. en gott að það sé gert af og til. En í fjarveru hæstv. forsrh. tek ég að mér að segja: Svona gera menn ekki --- nema að sjálfsögðu algjörlega óvart.

Ég fagna því að hæstv. fjmrh. tók af öll tvímæli um það að að tilgangur hans og stjórnarflokkanna með flutningi þessa frv. væri ekki sá að festa aflakvótakerfið í sessi. Því sé ekki ætlað að gera þeim sem aflakvóta hafa, auðveldara um vik að krefjast einhverra skaðabóta verði kerfinu breytt. Ástæðan fyrir að ég fagna því að hæstv. ráðherra skuli taka af öll tvímæli um þetta er að sjálfsögðu sú að formælandi Sambands ísl. útvegsmanna, Kristján Ragnarsson, lét svo ummælt þegar frv. komst fyrst á dagskrá í almennri umræðu, að tilgangur frv. væri einmitt sá að festa þetta kerfi í sessi. Því mælti hann ekki gegn frv. eins og það er lagt fram. Hann taldi að með því ætti að festa kerfi úthlutunar ókeypis aflakvóta til nokkurra einstaklinga og félaga. Hæstv. ráðherra hefur tekið af öll tvímæli um að þessi skilningur er alfarið rangur. Það er vel að hæstv. ráðherra skuli taka af öll tvímæli um það.