Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:53:11 (2385)

1997-12-16 15:53:11# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. fjmrh. um að þessi réttindi eiga að vera ófyrnanleg. Þetta eru auðlindir sem endurnýjast og halda gildi sínu ef allt er með felldu. Það breytir hins vegar ekki því að þau geta verið ákaflega forgengileg og það er ekki á vísan að róa. Af tveimur ástæðum aðallega geta þessi réttindi verið forgengileg. Í fyrsta lagi auðvitað vegna þess að Alþingi, löggjafinn, getur á hvaða tíma sem er ákveðið að leggja kerfið niður. Það eru ekki mikil verðmæti í þessu fólgin ef eitthvað allt annað tekur við. Það er algjörlega ótvírætt að 3. málsl. 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða heldur gagnvart því að Alþingi getur hvenær sem er breytt leikreglunum. Það gæti þess vegna lagt kerfið niður án þess að verða bótaskylt. En réttindin eru einnig forgengileg vegna þess að fiskstofnarnir geta hrunið. Af þeirri ástæðu geta þau verið forgengileg þó þau eigi ekki að vera fyrnanleg. Við höfum dæmin fyrir okkur um að ufsakvóti hefur t.d. verið nánast verðlaus nú á löngum köflum. Reyndar er verðið á síldarkvótanum í dag ekki hátt eins og vertíðin hefur gengið að þessu sinni. Um það eru nýleg dæmi að þarna mega menn ekki rugla saman, annars vegar því eðlislæga ákvæði að þau eiga ekki að vera fyrnanleg og hins vegar því að þau geta verið forgengileg. Að öðru leyti kom hæstv. ráðherra ekki inn á þá spurningu sem ég kom inn á, varðandi sem sagt skattlagninguna sjálfa, spurninguna um hvernig söluhagnaðurinn skuli síðan skattlagður, þegar hann verður orðinn ófyrnanlegur. Ég legg til í frv. sem ég vitnaði til að það verði um brúttóskattlagningu á öllum söluhagnaði veiðiheimilda að ræða, 50% brúttóskattlagningu án tillits til afkomu fyrirtækja að öðru leyti, ofan á það bættist síðan tekjuskattur ef um hagnað væri að ræða. Það hefði auðvitað verið fróðlegt ef hæstv. ráðherra hefði getað komið aðeins inn á hvaða viðhorf hann eða ráðuneyti hans hefur til þessa þáttar málsins.