Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 15:55:32 (2386)

1997-12-16 15:55:32# 122. lþ. 44.7 fundur 338. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sala og fyrning aflahlutdeildar) frv. 118/1997, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[15:55]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi ég skilið fyrirspurnirnar rétt þá tel ég að það eigi ekki að fara öðruvísi með skattlagninguna á söluhagnaði hjá þessum fyrirtækjum, hjá fyrirtækjum sem kaupa og selja aflakvóta, en ég hef skilið það þannig að hjá fyrirtæki sem kaupir aflakvóta og selur hann aftur eigi einungis söluhagnaðurinn að vera skattstofninn eins og gerist og gengur almennt í skattalögunum. Ég vil að það komi skýrt fram.

Ég vil einnig í þessu sambandi vekja athygli á því sem ég reyndi að gera fyrr í mínu máli og ég held að öllum sé ekki ljóst, það er að stundum er gagnrýnt að þeir sem hafa fengið kvóta úthlutað vegna þess að þeir áttu skip að veiðum frá 1981--1983 og sá kvóti sem fylgir skipunum, upphaflegi kvótinn, hann er ekki uppfærður hjá fyrirtækjunum. Sé hann hins vegar seldur þá myndast eign úr engu ef svo má að orði komast hjá þeim sem selur og þannig stækkar eignarskattsstofn hans og eign hans í bókhaldinu vegna þess að þetta er dulin eign hjá seljandanum. Þetta þarf að koma fram vegna þess að mér finnst sumir þeir sem telja að útgerðin eigi að borga meiri fjármuni sjaldnast koma auga á þessi sannindi.

En varðandi fyrirspurn hv. þm. ef ég hef skilið hana rétt þá tel ég að með skattlagningu söluhagnaðar á aflakvóta eigi að fara með sama hætti og almennt er um söluhagnað sambærilegra réttinda í skattalögunum.