Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:17:25 (2391)

1997-12-16 16:17:25# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:17]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu merkilegt mál fyrir margra hluta sakir. Ég geri ráð fyrir að það eigi eftir að vekja umræður og athygli bæði hér á Alþingi og úti í samfélaginu. Þetta mál er á margan hátt einstakt og flutningsmenn málsins heita, virðulegur forseti, samkvæmt fyrirsögn: meiri hluti umhvn.

Fyrr á þessu þingi fjölluðum við um frv. til laga um hollustuhætti, 194. mál þingsins á þskj. 197. Þetta mál er í mjög eðlilegum farvegi í hv. umhvn. Heildarlöggjöf er ætlað að taka við af lögum frá 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og umhvn. hefur eins og venjulega aflað umsagna um frv. og búið sig undir þetta vandasama verk. Þau eru minnug þess að oft á tíðum þarf að taka á honum stóra sínum þegar frumvörp berast frá hv. umhvrn. Þar í nefndinni reikna menn með að bæði þurfi góðan tíma og meiri þekkingu á málum vegna þess að á undanförnum árum hafa þau mál sem flutt eru hér á þingi frá hv. umhvrn. að jafnaði þurft gaumgæfilegrar skoðunar við. Það hefur talsvert reynt á þolrifin í hv. umhvn. við meðferð þeirra. Þeir sem bera saman frumvörp sem komið hafa frá ráðuneytinu til afgreiðslu á þingi geta fullvissað sig um að þar hefur reynt á umhvn. Hún hefur jafnvel þurft að skila inn heilum bókum eða ígildum bóka inn í þingið í formi brtt. eins og gerðist t.d. með frv. til laga um skipulags- og byggingarlög á síðasta þingi. Nú telur þessi ágæta nefnd, þeir sem hafa setið þar um nokkurra ára skeið eru í býsna góðri þjálfun, engan veginn eftir sér að leggja vinnu í málin. Þó veit ég að framsögumanni nál. um skipulags- og byggingarmál hryllti nokkuð við þegar fréttist af því að formaður umhvn. hefði brugðið á það ráð að leggja undir sig sjöttu heimsálfuna og í nefndinni væri komin upp ný staða. Að vísu var það svo að mjög vaskur þingmaður var samkvæmt ákvörðun nefndarinnar settur við borðsendann þegar í haust. Hann hefur stýrt nefndinni af stakri röggsemi, myndarskap og liðlegheitum, ekki síst gagnvart hv. ráðuneyti en einnig gagnvart nefndinni. Hann hefur þar lagt sig í líma við að fylla í skarðið mikla sem myndaðist þegar hv. formaður nefndarinnar fór að heimsækja sjöttu heimsálfuna. Ég reiknaði satt að segja með því að settur formaður mundi taka að sér það hlutverk að stýra meðferð mála varðandi hollustuhætti en það varð nú ekki að ráði. Af einhverjum ástæðum var hv. formaður nefndarinnar settur til hliðar og leitaður uppi afar vaskur maður, jafnvel enn vaskari þingmaður --- ég skal nú ekki fara í manngreinarálit --- til þess að hafa yfirumsjón með málsmeðferð varðandi frv. um hollustuhætti.

Ég batt auðvitað mjög miklar vonir við það að hv. þm. mundi farast það verk vel úr hendi og samskipti við hv. ráðuneyti um málið svo að allt mætti þetta fara eins vel og verk umhvn. hafa jafnan verið. Það fór því miður ekki svo. Hv. umhvn. hafði rétt aflað umsagna um frv. um hollustuhætti þegar heyrast fór hljóð, ekki við borðsendann, heldur á hliðarbekkjum nefndarinnar, um að nú þyrfti að fara að afgreiða þetta frv. sem ekki var neitt farið að taka til efnislegrar meðferðar í nefndinni. Reynslunni ríkari þá kváðu auðvitað flestir ef ekki allir í nefndinni upp um að það væri nú ekki nema sjálfsagt í ljósi þess að jafnan hefur það komið upp á jólaföstu að afgreiða á frumvörp frá hv. ráðuneyti að hausti. Hæstv. ráðherra þessara mála hefur lagt mjög ríka áherslu á það að málin séu afgreidd skjótt og umhvn. hefur dregið þær ályktanir að þetta væri vanabundið og ætti að afgreiða það á yfirstandandi þingi. Það þykir vel að verki staðið. Frv. til skipulags- og byggingarlaga skilst mér að hafi verið til afgreiðslumeðferðar á einum sex þingum þó reyndar hafi aðeins verið unnið í því á einu þingi af hálfu nefndarinnar. Ráðherrar höfðu engan áhuga á því að afgreiða málið á fimm fyrri þingum og létu þar við liggja.

Í byrjun jólaföstu hófst sem sagt dálítil ókyrrð á hliðarbekkjum í nefndinni og þegar tormerki voru talin á að hraða afgreiðslu málsins var farið að orða það hvort nefndin gæti ekki sameinast um að flytja brtt. um ákvæði sem afar brýnt væri að fá afgreidd út úr nefndinni. Út af fyrir sig var það sjálfsagt af hálfu nefndarmanna stjórnarandstæðinga, m.a. þeim sem hér talar, að líta á það efni enda ráð gert fyrir að það hlyti að vera um einhver minni háttar mál að ræða varðandi þetta stjfrv., eina dagsetningu eða svo, sem ætti að fá lögfest fyrir jól. En það var nú ekki. Þegar farið var að ræða málið frekar þá var það ekkert minna en þyngstu efnisatriðin, a.m.k. mjög þung og veigamikil efnisatriði úr frv. um hollustuhætti. Um þau höfðu borist umsagnir frá fjölmörgum aðilum, ákveðnar og eindregnar athugasemdir frá mörgum þar á meðal og ekki síst frá stofnunum umhvrn. Nú var meiningin að fá þessi atriði með hraði í gegnum Alþingi.

Ég og fleiri í hv. nefnd gerðum fyrirvara um þetta að þetta þarfnaðist eðlilegra vinnubragða og hljóðnaði þá umræða um þetta í nefndinni um hríð. En ekki var langur tími liðinn þegar upp var tekið á nýjan leik og þá höfðu vaskir menn á hliðarbekkjum aflað sér upplýsinga um að ekki væri fortakslaust bannað að meiri hluti nefndar flytti mál inn í þing. Lagst var í rannsóknir á því hvenær það hefði gerst að meiri hluti nefndar hefði flutt mál. Þess fundust dæmi og finnast dæmi um að slíkt hafi verið gert en þau eru fá. Ég hef aldrei verið þátttakandi í neinu slíku. Þó hef ég stýrt nefndum í þinginu og setið alllengi á Alþingi, miðað við meðaltal. En ég hef aldrei átt hlut að því að afgreiða mál inn í þingið frá meiri hluta þingnefndar þannig að í þessu máli hlýtur náttúrlega eitthvað alveg sérstaklega brýnt að vera á ferðinni. Hvað er svona brýnt og birtist okkur á þskj. 464 sem 349. mál þingsins, sem frv. til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum. Hér er mikið lið innan sviga, virðulegur forseti, og finnst mér lítið leggjast fyrir kappana að dyljast í skammstöfunum innan sviga sem flutningsmenn þessa máls. Rétt eins og hjá Evrópusambandinu sem hv. þm. nefndi áðan ,,Evrópska efnahagsbandalagið`` þar sem þeir hafa komið sér upp slíku skammstafanakerfi að orðabækur þarf til að fletta upp í á hverri blaðsíðu. ÍGP, TIO, GE --- þetta eru flutningsmenn frumvarpsins sem dyljast hér innan sviga sem meiri hluti umhvn. Þeir hafa tekið að sér fjósverkin fyrir hæstv. umhvrh. eða ráðuneyti umhverfismála á jólaföstunni, tekið að sér að moka flórinn fyrir jólin.

[16:30]

Ég ætla ekki að gera lítið úr fjósverkum því að sjálfur hef ég stundað þau um dagana um árabil, einnig með gömlum aðferðum og veit að það reynir nokkuð á. Gott er að menn hafi reynslu sem sveitarstjórar á Hvolsvelli og víðar áður en lagt er í slíkt, virðulegur forseti. En það sem þessu ,,svigaliði`` liggur mest á að koma inn í þingið, virðulegur forseti, er hvorki meira né minna en samviska hæstv. umhvrh. í tilteknum búningi. Þetta er samviskufrv. frá hæstv. umhvrh. sem komið er með þessum krókaleiðum hér inn í þingið.

Hæstv. umhvrh. hefur lagt fram frv. og þetta er plokkað út úr því, þessar rúsínur sem hér er að finna. Hann hefur um árabil stundað það af mikilli list, studdur af úrvalsliði ráðgjafa í ráðuneyti sínu, að úthluta fyrirtækjum í landinu leyfi til atvinnurekstrar. Hæstv. ráðherra hefur að talið er stuðst við lög frá 1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, reglugerðir settar samkvæmt þeim lögum og reglugerðarbreytingar á reglugerðarbreytingar ofan við þau lög. Þetta hefur reynst hæstv. ráðherra afskaplega erfitt og af því skapast svo mikil flækja að endarnir liggja út í Vonarstræti og jafnvel út í Tjörn ef endarnir á þeim æfingum sem hæstv. ráðherra hefur stundað í sambandi við útgáfu starfsleyfa finnast yfirleitt.

Nú virðist samviska hæstv. ráðherra farin að rumska og því er þetta frv. flutt sem afar brýnt viðfangsefni til að ganga frá ákveðinni lögfestingu á því sem nú á að heita skilningur hæstv. ráðherra á málinu. Það er sagt vera brýnt vegna þess að til standi að gefa út starfsleyfi var kynnt hér af hv. þm. ÍGP (ÍGP: Ég las nú upp öll nöfnin. Það hefur kannski farið fram hjá þér?) Virðulegur forseti. Var kallað hér úr sal? Kynnt var að ætti gefa ætti út starfsleyfi fyrir Sementsverksmiðju ríkisins, steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki, Áburðarverksmiðjuna, stækkun á framleiðslu Íslenska járnblendifélagsins á Grundartanga, sem við stundum köllum járnblendiverksmiðju, og síðast en ekki síst sjálfa magnesíumverksmiðjuna. Til stendur að gefa út þessi starfsleyfi svo að það eru greinilega afar brýnar ástæður sem liggja að baki þessu.

Ekki hefur mikið heyrst um þau mál sem þarna eru nefnd. Ég las um það í blöðum í síðustu viku að framkvæmdum við járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga væri slegið á frest og í því fyrirtæki liggur ekki fyrir nein stjórnarsamþykkt um hvenær ráðast eigi í það mál. Hví þá að fara að gefa út starfsleyfi fyrir verksmiðjuna nema þá eins og að hafa færibandið í lagi til þess að þetta bíði fyrirtækisins þegar því þóknast að taka ákvörðun um framkvæmdir? Ég vil biðja hv. frsm. þessa frv. og eftir atvikum hæstv. ráðherra að gera Alþingi grein fyrir því hvenær þessi fyrirtæki hefji sínar framkvæmdir og hvenær reikna megi með að fyrirtækin þurfi á starfsleyfi að halda, taki til starfa og hefji rekstur.

Í frv. er gert ráð fyrir ákveðnu ferli upp á ekki minna en 16 vikur í leyfisveitingar til fyrirtækis af þessum toga og fróðlegt er að ef starfsleyfið væri auglýst í janúar samkvæmt þessu þá er það hæft til útgáfu fjórum mánuðum síðar ef þeir frestir eru notaðir sem ráð er fyrir gert í frv. Nú er það hins vegar svo, virðulegur forseti, að hæstv. ráðherra hefur undir höndum heimildir af ýmsum toga, lagaheimildir til útgáfu starfsleyfa. Ekki hefur borið á því að hæstv. ráðherra kinoki sér neitt við að beita þeim reglum eða breyta reglugerðum eftir sínu höfði til þess að ná fram vilja sínum í sambandi við útgáfu starfsleyfa þannig. Nú hlýtur að vakna spurningin: Hvað er hæstv. ráðherra nú að vanbúnaði ef málið er svo brýnt að ekki er ráðrúm til að fara í gegnum það stjfrv. sem hæstv. ráðherra hefur borið fram um þetta efni og til að þingnefndir fái þokkalegan frið til starfa?

Síðan er, virðulegur forseti, þessum starfsleyfismálum fyrir komið með alveg sérstökum hætti sem ég mun ræða frekar í síðari ræðu minni við þessa umræðu og það snjallræði að kasta stjórn fyrirtækisins út í hafsauga þegar um áramótin og ráða til starfa einn alvalda forstjóra. Sá hinn sami verður að vísu undir hæl hæstv. ráðherra þannig að heimatökin verði nú virkilega hæg í þessu fyrirtæki sem er aðalmengunarvarnastofnun landsins. En vissara þykir um stóriðjuframkvæmdir, virðulegi forseti, að ráðherra þessara mála hafi þar öll tök í hendi sér.