Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:56:19 (2400)

1997-12-16 16:56:19# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:56]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í upphafi máls míns lýsi ég undrun minni á þeim vinnubrögðum sem við erum að verða vitni að enn eitt árið. Ef ég hef skilið málið rétt er meiningin að afgreiða frv. á næstu fjórum dögum og ég verð að lýsa undrun minni á því að þetta skuli koma svona seint fram. Ef þau rök eru gild, sem komu fram hjá hæstv. umhvrh., að það liggi svo mikið á því að fá þær lagaheimildir sem verið er að biðja um þá hljótum við að spyrja hvernig í ósköpunum á því standi að þau atriði, sem er svo brýnt að lögfesta, séu ekki komin að hér fyrr. Að vísu er staðan sú í þinginu að það er óvenjulega rólegt. Að því er séð verður á þessari stundu eru engin mjög stór átakamál til umræðu fyrir utan fjárlögin og eitt og annað kann að koma út úr nefndum. Eftir að hafa lesið efni frv. sýnast mér vera svo margar spurningar hér á ferð að ég skora á hæstv. ráðherra og umhvn. að skoða málið nánar.

Ég hef sjálf ekki fylgst nægilega vel með málefnum Hollustuverndar ríkisins en þau samtök sem ég tilheyrði þar til fyrir u.þ.b. mánuði hafa átt fulltrúa í stjórn Hollusturverndar ríkisins. Þar hefur setið Kristín Einarsdóttir, fyrrv. þingmaður, fyrir hönd Kvennalistans, og ég hef heyrt frá henni að hún hefur verið mjög óánægð með þá þróun sem hefur átt sér stað innan stofnunarinnar. Ég veit að hún er afar ósammála því atriði sem hér er verið að leggja til, sem er að leggja niður stjórn stofnunarinnar, og ég ætla að koma að því máli síðar í ræðu minni. En vegna þess að ég er ekki nógu vel að mér í málefnum stofnunarinnar fór ég að fletta upp í fjárlögunum og ég verð að lýsa undrun minni á því, hæstv. forseti, að í fjárlagafrv. er ekki að finna stafkrók, hér eru engar skýringar á stöðu stofnunarinnar. Af því má sennilega draga þá ályktun að sú upphæð, 164 milljónir, sem gert er ráð fyrir á gjaldahlið Hollustuverndar ríkisins á næsta ári sé nokkurn veginn sama upphæðin og á því ári sem nú er að renna skeið sitt á enda. Ég veit það þó ekki, það er enga skýringu að finna. Ég hef nefnilega skilið það þannig, hæstv. forseti, og þá þekkingu hef ég af því að það hefur komið fyrir að starfsfólk Hollustuverndar hefur verið kallað fyrir í þeim nefndum sem ég hef átt sæti í, og ég hef fylgst með ýmsum málum sem hafa komið hér inn í þing og ég hef skilið það svo að verkefni Hollustuverndar ríkisins hafi vaxið allverulega á undanförnum árum, ekki síst í kjölfar EES-samningsins og allra þeirra reglugerða sem við höfum orðið að gera lög um vegna þess samnings.

[17:00]

Þetta á einnig við um ýmsar aðrar stofnanir og þar nefni ég sérstaklega Vinnueftirlitið sem er kannski svolítið skyld stofnun þessari. Ég hef skilið það svo, eins og ég sagði, að síaukin verkefni hafi lagst á þessa stofnun og ég spyr mig hvernig hún sé í stakk búin til að sinna verkefnum sínum. Ég vildi gjarnan fá það upplýst í umræðunum þótt það tengist ekki beint þeim lagabreytingum sem er verið að gera. En einmitt þegar maður fer að kynna sér mál af þessu tagi þá reynir maður að afla sér upplýsinga um viðkomandi stofnun þar sem þær ættu að vera nærtækastar. Ég beini því til umhvrn., hæstv. ráðherra, og starfsliðs hans, að meira sé vandað til upplýsinga en gert er í frv. Mér finnst einfaldlega sjálfsagt mál að það komi fram varðandi hverja einustu stofnun hvort verið er að auka fjárframlög eða hvort þau standa í stað. Eins og við vitum er um nýja framsetningu á fjárlögunum að ræða og ég get heldur ekki gert mér neina grein fyrir því hvort þær þjónustutekjur sem hér eru tilgreindar, 17,3 millj. kr., eru sömu og verið hefur eða hvort þetta er meira eða minna. Hvernig tengist það því sem fram kemur í frv. um að sett verði gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða hún tekur að sér, sbr. 14. gr. eins og segir í 6. gr. þessa frv. Afar erfitt er að gera sér grein fyrir því hvaða breytingar eru á ferðinni. En það segir í skýringum, með leyfi forseta: ,,Greinin er efnislega samhljóða 17. gr. gildandi laga.``

Hér er samt sem áður aðeins verið að breyta hlutverki stofnunarinnar sem kemur fram í ákvæði til bráðabirgða og ég mun koma að síðar í máli mínu. Ég vil því kvarta yfir þessu, hæstv. forseti, að fyrir okkur þingmenn sem sitjum ekki í umhvn. er erfitt að átta sig á þessum málum öðruvísi en að maður hefði hreinlega haft samband við stofnunina og til þess hafði ég ekki tíma.

Ég vík þá að sjálfu málinu. Við lestur frv. hafa vaknað margar spurningar í huga mínum. Í 1. gr., sem ég lít á sem aðalgrein frv., er verið að greina með tvennum hætti í sundur hvernig skuli staðið að veitingu starfsleyfa. Annars vegar er það svo að umhvrh. fær réttinn til að gefa út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun ef samanlögð fjárfesting er meiri en 950 millj. kr. Hæstv. umhvrh. á því að gefa út starfsleyfi til hinna stærri fyrirtækja og síðan er ákveðið ferli í kringum það hvernig að því skuli staðið. Hollustuvernd ríkisins á að vinna tillöguna og auglýsa hana opinberlega og síðan er auglýst eftir skriflegum athugasemdum. Ég spyr, hver er hin raunverulega breyting í þessu? Mér sýnist að verið sé að færa mjög mikið vald til umhvrh. Meginspurning mín og vangaveltur snúa í rauninni að því að um afar viðkvæman málaflokk er að ræða. Við sjáum af umræðum undanfarinna ára og reynslu þessa árs, að reyndar tengist þetta stóriðjustefnunni sem ég ræddi um fyrr í dag en ætla ekki að fara að tala um aftur, að þessi starfsleyfi og þessi starfsemi sem eins og segir í frv. ,,hafa í för með sér mengun`` orkar tvímælis og veldur deilum. Ég held að því meiri sérþekking og því fleiri sem koma að ákvarðanatökunni því betra. Því opnara sem þetta kerfi er og því auðveldara sem almenningi er gert að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif því betra. En endanlega þarf að taka ákvörðun. Ástæðan fyrir því að m.a. ég hef efasemdir um þetta ferli er sú að ég hef ekki verið sátt við hvernig staðið hefur verið að veitingu starfsleyfa eða hvaða starfsemi er verið að leyfa og í raun og veru tengist þetta deilum um hvað veldur mengun og hve mikið og hvernig. Því vil ég spyrja hæstv. umhvrh. hvernig menn skilgreina hugtakið að ,,hafa í för með sér mengun``. Þær deilur sem við höfum orðið vitni að á undanförnum árum hafa ekki eingöngu snúist um mengun heldur kannski líka röskun umhverfis og hvar skilin séu á milli og hver eigi að veita hvaða starfsleyfi. Þegar ég tala um þetta þá er ég ekki síst að hugsa um orkuverin sem eru stórkostlegt umhverfismál. Það er ekki þar með sagt að þau valdi mengun, þau geta valdið ákveðinni umhverfisröskun, en svo geta þau auðvitað valdið ófyrirséðum áhrifum á t.d. lífríkið eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur oft bent á að okkar saga segir frá. Hvar eru mörkin þarna á milli? Ætti ekki í rauninni að styrkja vald umhvrh. hvað varðar veitingu starfsleyfa í öðrum þeim efnum sem snúa ekki beinlínis að mengun heldur umhverfisröskun þó ég sé ekki þar með að segja að umhvrh. eigi að hafa eitthvert alræðisvald. Því spyr maður hvað býr að baki þessarar greinar. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan að það eru nokkur fyrirtæki sem hann og væntanlega ráðuneyti hans telja brýnt að fái endurnýjun starfsleyfa eða jafnvel ný starfsleyfi. Ég fæ ekki séð að ekki sé hægt að nota gömlu aðferðina eða þær leiðir sem hingað til hafa verið farnar ef málið snýst um að vinna þetta mál almennilega.

Tíminn líður hratt og margar spurningar brenna í huga mínum. Ég vil endilega koma að þessu atriði með stjórn stofnunarinnar. Það kemur fram í ákvæði til bráðabirgða og skýringu á ákvæði til bráðabirgða að hlutverk stofnunarinnar er afar margvíslegt. Þetta eftirlitshlutverk og eftirlit með mengun er afar víðtækt. Eins og ég sé þetta er um stofnun að ræða sem á að hafa aðgang að sérfræðingum og geta stöðugt leitað til sérfræðinga og til sérfræðiþekkingar. Ég er þeirrar skoðunar og er mjög ósammála því sem kemur fram í greinargerð að stofnun af þessu tagi eigi ekki að hafa stjórn yfir sér --- kannski ætti maður að kalla það sérfræðingaráð eða eitthvað slíkt. Ég held að það hljóti að vera afar brýnt fyrir í þessu tilviki forstjóra því ætlunin er að breyta titli yfirmanns þessarar stofnunar, að geta stöðugt leitað til sérfræðinga og til stjórnar slíkrar stofnunar vegna þess hvað þetta er gríðarlega viðkvæmur málaflokkur og hve miklar deilur geta spunnist í kringum hann. Eitt er að skilgreina og fylgja eftir reglugerðum um eiturefni eða aukefni í matvælum þar sem allar reglur liggja fyrir, en þar sem um hávísindalegt mat getur verið að ræða eða reyndar pólitískt mat og skoðanir í umhverfismálum fer málið mjög að vandast. Því tel ég afar vafasamt að leggja niður stjórn stofnunarinnar þó ekki sé meira sagt.

Þá vil ég líka koma að skipan úrskurðarnefndarinnar sem fjallað er um í 8. gr. Í skýringum við þá grein er lagt til að það verði einn lögfræðingur sem hafi starfsgengisskilyrði héraðsdómara, síðan skipi Samband íslenskra sveitarfélaga einn fulltrúa og síðan ráðherra einn. Sá sem ráðherra á að skipa tekur við af þeim fulltrúa sem landlæknir skipar nú. Nú get ég fallist á í ljósi víðtækara hlutverks þessarar stofnunar og aukinnar sérhæfingar af ýmsu tagi og mengunarmála að sé í sjálfu sér ekki eðlilegt að landlæknir komi að þessu máli frekar en ýmsir aðrir. Ég hefði haldið að í úrskurðarnefndinni sem á að fjalla um ágreining um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim og/eða ákvarðana yfirvalda, þurfi líka að vera veruleg sérfræðiþekking. Ég er farin að tala eins og fulltrúi sérfræðingaveldisins, sem er sívaxandi í samfélaginu og þarf auðvitað að varast, en sumir málaflokkar og sum málefni eru einfaldlega þannig að þar þarf sérfræðiþekking að koma til. Ég set spurningarmerki við hvort það sé rétt að Samband íslenskra sveitarfélaga sé rétti aðilinn. Nú er sambandið viðkvæmt fyrir gagnrýni en nýlega voru sveitarfélögin gagnrýnd vegna þess að þau hafi ekki næga þekkingu til að stjórna hálendinu en ég ætla að biðja þá sem hér sitja að taka þetta ekki sem einhverja gagnrýni á Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin í landinu heldur er ég fyrst og fremst að reyna að segja að ég held að hér sé um svo sérhæfð mál að ræða að ég dreg skipanina í efa. Ég vil líka spyrja hvort ekki væri rétt að úrskurðarnefndin væri stærri, þetta væri fimm manna nefnd, eða hugsanlega að hægt væri að breyta um skipan hennar eins og í gerðardómi eða slíku eftir því hvers eðlis málin eru.

Hæstv. forseti. Vegna þess að tími minn er alveg að renna út vil ég líka koma að því atriði sem ég hljóp yfir áðan í 1. gr. Ég ræddi um vald ráðherra og þá skiptingu að hann hefur vald til að veita starfsleyfið til hinna stærri fyrirtækja en síðan er það Hollustuverndin og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna sem veita starfsleyfi þar sem fjárfestingin er undir 950 millj. kr. og með því ferli sem þar er. Ég spyr líka hvernig heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna eru í stakk búnar til að sinna verkefni af þessu tagi? Hvernig hefur það reynst? Ég er ekki að segja þetta vegna þess að ég vantreysti því fólki sem þar starfar og auðvitað hafa nefndirnar alltaf tækifæri til að kalla til sín sérfræðinga og leita álits og hafa Hollustuvernd ríkisins sér til halds og trausts. En vegna hinna mjög svo viðkvæmu mála sem eru á ferðinni --- þá er ég t.d. að hugsa um allar þær deilur sem orðið hafa í Mývatnssveit --- þar sem geta orðið afar mikil og erfið átök í litlum sveitarfélögum vegna stórra fyrirtækja, þau skapa atvinnu og eru byggðinni dýrmæt en valda líka röskun í náttúrunni. Ég spyr því hvernig hefur það reynst að heilbrigðisnefndirnar séu aðilar að þessu.

[17:15]

Varðandi þá breytingu sem gerð er bæði á stjórn stofnunarinnar og þess að nú skal vera þar forstjóri er ég ósammála þeirri stefnu sem fram kemur í skýringu við 5. gr. Ég set spurningarmerki við það hvort ekki sé búið að ganga allt of langt í því að taka fulltrúa Alþingis út úr stjórnum og þessi breytta stefna í rekstrarmálum ríkisins er að mínum dómi gagnrýniverð. (Forseti hringir.) Enn og aftur, hæstv. forseti, dreg ég í efa að hún eigi við í málaflokki eins og þessum þar sem þörf er á því að margir aðilar komi að, sérfræðiþekking og sérfræðilegt mat sé tryggt og einnig að almenningur eigi greiða leið að stofnuninni og geti auðveldlega komið athugasemdum og gagnrýni á framfæri og að sú gagnrýni sé metin á hlutlægan hátt en með þeirri þekkingu sem til þarf.