Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 17:19:55 (2402)

1997-12-16 17:19:55# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[17:19]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu rétt sem fram kom í máli hæstv. umhvrh. að þetta mál hefur verið til meðferðar í umhvn. í vetur og eflaust hefur margt af því sem ég kom inn á í máli mínu verið í umræðunni í haust. Ég tók reyndar fram að ég hef ekki sérþekkingu á þessum málum en fór að lesa þetta frv. Þar sem ljóst var að það væri svona brýnt var ég að reyna að átta mig á því um hvað málið snerist. Ég verð að segja að ég hef ekki komist að niðurstöðu hvað það varðar hvað er svona brýnt annað en það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra og snýr að þessum starfsleyfum, að það sé svo brýnt að hann fái heimild til þess að ganga frá starfsleyfum fyrirtækjanna sem bíða eftir þeim.

En þá spyr ég líka: Hvers vegna er verið að blanda hér inn í og taka út úr óskyld efni eins og þau sem varða stjórn þessara stofnana? Hvað liggur á því að breyta þeim ákvæðum? Ég held að það sé atriði sem menn ættu að skoða miklu betur og það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi stjórn hefur verið skipuð fólki af ýmsu tagi þó að t.d. við í þáverandi Kvennalista hefðum sett konu með mikla menntun sem tengist þessu sviði sem fulltrúa í stjórninni. En ég held að væri miklu nær að skoða hvort það sé ekki mjög gott fyrir stofnun af þessu tagi að hafa stjórn sem veitir stuðning og aðhald í starfi stofnunarinnar, stjórn sem hægt er að leita til varðandi ýmis álitamál sem koma upp í stað þess að það sé forstjórinn einn sem situr þar uppi með ábyrgðina. Hann hefur ekkert að leita nema í ráðuneytið.