Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 20:32:40 (2409)

1997-12-16 20:32:40# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[20:32]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1997 frá meiri hluta fjárln.

Nokkur atriði málsins hafa verið til umræðu í nefndinni fyrir 3. umræðu. Umfjöllun um þau er nú lokið í nefndinni og leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum við 2. gr. sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali, en þær nema alls 353,9 millj. kr. til lækkunar á gjaldahlið.

Einstakar breytingartillögur eru skýrðar í athugasemdum með álitinu, auk þess sem fjallað verður um þær í framsögu. Einnig skal þess getið að í samræmi við endurskoðaða tekjuáætlun fjármálaráðuneytisins er nú gert ráð fyrir í frumvarpinu að tekjur ríkissjóðs aukist um 854 millj. kr. frá fyrri áætlun og verði tæplega 131,8 milljarðar kr., samanber breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins.

Skýringar við einstakar breytingartillögur er að finna á þskj. 558.

Lækkun á útgjaldahlið frv. skýrist af því að undir fjmrn. lækkar liðurinn Ýmis lán ríkissjóðs, vextir um 480 millj. kr. Þegar áætlun um vaxtagreiðslur ríkissjóðs var endurmetin fyrir framlagningu frv. stóð enn þá yfir átak sem miðaði að því að innkalla ýmsa eldri flokka spariskírteina og fá eigendur þeirra til að skipta þeim í staðinn í svonefnda markflokka. Reiknað var með því að svipuð þróun yrði til ársloka og hafði verið frá því að endurskipulagning hófst snemma á árinu. Reyndin hefur hins vegar orðið sú að mun færri hafa nýtt sér tilboð um skiptikjör fyrir markflokka síðustu mánuði ársins en ætlað var. Til þessa má rekja lækkun útgjaldahliðarinnar en lækkun þess kostnaðar nemur um 480 millj. kr.