Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:02:24 (2412)

1997-12-16 21:02:24# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:02]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. spurði nokkurra spurninga. Sú fyrsta var hvað ég mundi gera ef ég væri forstöðumaður á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, hvort ég mundi loka um áramótin. Ef ég væri forstöðumaður þar mundi ég ekki loka. Ég færi í þær viðræður sem fyrirhugaðar eru og færi yfir nokkur atriði. Í fyrsta lagi færi ég að fara yfir samninginn sem gerður hefur verið, ég mundi reyna að ná samkomulagi um hallatölur sem hafa birst okkur. Ýmsar tölur hafa birst okkur í því sambandi og ég mundi setjast niður og reyna að fá samkomulag um áætlun um viðhald á Sjúkrahúsi Reykjavíkur til nokkurra ára. Ég mundi reyna að festa þá áætlun niður. Þetta er það sem ég mundi gera og einmitt þessi atriði er nauðsynlegt að skýra betur en hægt er á þessari stundu.

Ég hef aldrei haldið því fram að Sjúkrahús Reykjavíkur hafi vanefnt það samkomulag sem var gert í september en hins vegar er ljóst að deilur eru um það samkomulag og deilur um ýmis atriði þess eins og hv. þm. nefndi réttilega um Grensásdeildina, um samhæfinguna o.s.frv. Það er nauðsynlegt að fá þau mál á hreint.

Hv. þm. spurði einnig: Hver borgar uppsafnaðan halla? Hver borgar fjármagnskostnaðinn? Ég hygg að það sé alveg ljóst að það er ríkissjóður sem hefur lagt sjúkrahúsum fjármagn til rekstrar og sá halli lendir á ríkissjóði. Ég hygg að svo muni verða.