Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:04:56 (2413)

1997-12-16 21:04:56# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:04]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni fjárln. kærlega fyrir svörin. Þau voru mjög skýr. Í fyrsta lagi sagði hv. formaður fjárln. að hann mundi ekki loka um áramótin, hann mundi ekki fara í það um áramótin ef hann væri forstjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur að segja upp fólki. Eins og hann sagði færi hann yfir þrjú atriði: Í fyrsta lagi færi hann yfir samninginn frá 12. sept., það er eftir að ganga frá í honum. Í öðru lagi mundi hann reyna að ná samkomulagi um hallatölur spítalans og þetta hlýtur þá væntanlega að eiga við Ríkisspítalana líka, ég tel að það hljóti svo að vera. Í þriðja lagi mundi hann reyna að fá samkomulag um áætlun um viðhald á Sjúkrahúsi Reykjavíkur til nokkurra ára. Þetta var það sem hann sagði.

Í öðru lagi lagði hann á það áherslu að hann hefði aldrei haldið því fram að Sjúkrahús Reykjavíkur hafi vanefnt samninginn frá 12. september. Það er mjög mikilvægt að þetta hefur verið sagt vegna þess að mér finnst að þetta hafi legið í orðum hv. 2. þm. Vesturl. en það kann að vera misskilningur hjá mér. Hins vegar sagði hv. 2. þm. Austurl. að það hefðu verið deilur um ýmislegt og það má út af fyrir sig segja það. En það er ekki hægt finnst mér að gagnrýna einhliða Sjúkrahús Reykjavíkur fyrir þær deilur vegna þess að þær hafa verið á milli þess og Ríkisspítalanna, a.m.k. að því er varðar bæklunarlækningarnar.

Í þriðja lagi spurði ég: Hver á að borga uppsafnaðan halla og hver á að borga fjármagnskostnað? Hv. 2. þm. Austurl. og formaður fjárln. sagði: Það hlýtur auðvitað að lenda á ríkissjóði svo sem verið hefur. Þetta voru þau svör sem ég bjóst við að fá. Mér finnst þau skýr og tæmandi miðað við stöðu málsins eins og hún hefur verið.