Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:09:07 (2415)

1997-12-16 21:09:07# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:09]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Tilvitnun er að sjálfsögðu rétt lesin en hún segir ekki neitt. Auðvitað er það þeirra að halda utan um framkvæmd samkomulagsins og það er alveg ljóst að að því er best verður séð hafa þeir reynt að halda utan um það. En staðan er engu að síður nákvæmlega sú sem lýst er þannig að ekki er hægt að segja: Staðan er svona slæm af því að samkomulagið hefur ekki verið efnt að fullu. Menn hafa lagt sig fram um það, náð árangri á ýmsum sviðum en mjög margt í samkomulaginu er þannig að það átti fyrst að fara að skila árangri í peningum á árinu 1998. Það er ekkert í samkomulaginu sem liggur með þeim hætti af hálfu spítalanna að hægt sé að segja að þarna hafi verið um það að ræða að þeir hafi dregið lappirnar og þess vegna sé staðan svo vond. Hún er vond af allt öðrum ástæðum sem menn eru meira og minna sammála um hverjar eru.

Í annan stað um stýrinefndina. Hv. þm. sagði að sett yrði niður stýrinefnd til að gera tillögur um útdeilingu á 200 millj. kr. plús 300 millj. kr. eða samtals 500 millj. kr. vegna ársins 1997, vegna ársins 1998. Fjárln. mun fjalla um þær tillögur sem hluta af fjáraukalögum. Það finnst mér skrýtið vegna þess að fjárlögin eru væntanlega endanleg og potturinn kæmi því aðeins til meðferðar á Alþingi sem hluti af ríkisreikningi vegna áranna 1997 og 1998 en ekki sem fjáraukalög nema verið sé að segja með þessu að það hljóti að koma meira fé en nemur þessum potti eða nemur þessum 300 millj. á árinu 1998. Það held ég að hljóti reyndar að vera og spái að það verði svo. Þess vegna tel ég svo sem enga ástæðu til annars en að þakka hv. 2. þm. Vesturl. fyrir svörin en ég vil kannski bæta því við ef hann hefði tíma til að nefna það í næsta andsvari ef hann telur ástæðu til að veita það, hvort hann rengir eitthvað af þeim tölum sem liggja fyrir um sjúkrahúsin og hér hefur verið rætt um, þ.e. 900 millj. samtals vegna ársins 1998 í óbreyttan rekstur og 600 millj. samtals vegna ársins 1997 og fortíðarinnar í óbreyttan rekstur.