Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:13:56 (2417)

1997-12-16 21:13:56# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:13]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Vesturl. fyrir svörin sem voru mjög mikilvæg. Í fyrsta lagi lagði hann á það áherslu að hann væri ekki að vefengja talnagrundvöllinn. Það er mjög mikilvægt. Ég hygg reyndar án þess að ég ætli að fara að leggja honum sérstaklega lið í þessu, þá gæti hann út af fyrir sig sagt sem svo: Það er spurning um hallann á Sjúkrahúsi Reykjavíkur vegna ársins 1997. Ef menn eru að horfa á þessar 1.500 millj. hygg ég að menn gætu sagt sem svo: Það er kannski hæpið að ganga út frá því að hann sé 110 millj. eins og sjúkrahúsið heldur fram miðað við það sem sjúkrahúsið skrifaði undir 12. sept. Látum það vera. Talnagrunnurinn er ekki vefengdur. Það er mikilvægt.

Í öðru lagi er mjög mikilvægt að hv. varaformaður fjárln. gagnrýnir ekki tölurnar og ekki málið heldur yfirlýsingar um lokanir. Hann gagnrýnir yfirlýsingar um lokanir. Af hverju komu yfirlýsingar um lokanir? Það var vegna þess að forstöðumenn Sjúkrahúss Reykjavíkur töldu að fjárlögin væru endanlegur dómur. Nú upplýsa bæði formaður og varaformaður fjárln. að fjárlögin séu ekki endanlegur dómur í málinu, að það sé við því að búast að hægt sé að gera sér vonir um að þarna verði um að ræða meiri fjármuni á árinu 1998 en er á árinu 1997 (StB: Þetta er rangt.) heldur en er í þeim tillögum sem liggja fyrir. Báðir þessir talsmenn eru því að gefa í skyn að það eigi ekki að loka, þeir segja: Það á ekki að loka af því að forustumenn spítalanna geta gert sér vonir um meiri peninga. Það er það sem hér er verið að segja og það er fagnaðarefni að það skuli liggja fyrir og útilokað er að skoða orð hv. 2. þm. Vesturl. öðruvísi af því að hann sagði: Það á ekki að ákveða lausnina fyrir fram eftir þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir. Eftir hverju þá? Eftir því sem menn kunna að ákveða í fjáraukalögum á árinu 1998. Það er ekki hægt annað en að skilja orð hans svo og ég þakka honum fyrir það.