Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:16:26 (2418)

1997-12-16 21:16:26# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:16]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að draga þessa umræðu á langinn en það er óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum við 3. umr. um þetta frv. til fjáraukalaga þegar fyrir liggja í grófustu dráttum niðurstöðutölur fjárlaga komandi árs og bera eilítið saman nokkrar stærðir í því samhengi og meta svona hlið við hlið. Ég ætla svo sem ekki að eyða löngum tíma í þá umræðu sem hér hefur farið fram og snýst vitaskuld um grundvallaratriði, þ.e. hag heilbrigðiskerfisins hér á landi og þá meðferð sem einkum og sér í lagi sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið í þessum fjáraukalögum sem við erum senn að afgreiða og ekki síður í þeim fjárlögum sem senn munu afgreidd héðan frá þinginu, væntanlega í þessari viku.

Mig langar hins vegar að láta hér í ljósi nokkra þanka um krónur og aura, um stærðir og forgangsröðun í þessu sambandi. Við ræðum það gjarnan í þinginu að það þurfi að forgangsraða í heilbrigðiskerfinu til þess að ná einhverjum tökum á því ágæta kerfi. Yfirleitt nær þessi umræða ekki lengra en í almennt snakk og menn komast aldrei að kjarna málsins. Nefnd sem skipuð var og menn bundu miklar vonir við komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri allt í býsna góðu lagi og skildi þannig við verkið. Þegar við hv. þingmenn, sérstaklega á síðustu dögum þingsins, erum að véla um stórar tölur --- hér ræða menn vanda sjúkrahúsanna í Reykjavík í hundruðum milljóna og stundum í milljörðum --- þá vekur það auðvitað athygli, virðulegi forseti, þegar menn eru farnir að skoða sambærilegar tölur í fjárfestingum utanrrn. Ég veit vel að þessi umræða fór hér að nokkru leyti fram við 2. umr. en ég held að það sé óhjákvæmilegt að glöggva hana eilítið, ekki síst í ljósi þess að ég leitaði eftir því hjá utanrrh. hvernig staðið væri að og hverjar kostnaðartölur væru við tvær stórar framkvæmdir á vegum utanrrn. í erlendum stórborgum. Annars vegar var um að ræða umbætur á sendiherrabústað í Washington sem er að finna í þessum fjáraukalögum og hins vegar um að ræða verkefni sem lýtur að nýbyggingu sendiráðs í Berlín.

Í fjáraukalögunum sem við erum að ræða eru ekki litlar stærðir á ferðinni. Í utanrrn. eru tvö stór verkefni, þ.e. endurbætur á sendiherrabústað í Washington upp á 95 millj. og sendiráði Íslands í London upp á 290 millj., með öðrum orðum rétt um 300 millj. Í byggingu er nýtt og glæsilegt sendiráð í Berlín upp á 350 millj. þannig að nú erum við farnir að nálgast þær stærðir sem við erum að ræða í tengslum við heilbrigðismálin og getum farið að tala um þetta í hundruðum milljóna. Vissulega er það svo að fólk úti í samfélaginu veltir dálítið vöngum yfir því hvernig á því standi í þessari forgangsröðun sem pólitíkusar gjarnan eru að ræða, hvort það sé endilega þetta sem þurfi að ráðast í akkúrat núna.

Nú má enginn skilja orð mín þannig að ég vilji núverandi eða væntanlegum sendiherra í Washington svo illt að húsið hrynji yfir hann né heldur að núverandi og væntanlegir sendiherrar í Lundúnum lendi í því hinu sama því að ég minnist þess að hv. þm. Jón Kristjánsson skýrði það með tilvísan til sérfræðinga í utanrrn. að allt stefndi í það að óbreyttu að sex hæða húsið á Park Street í London væri að hruni komið. En ég spyr af því af ég veit ekki betur: Voru menn að átta sig á því akkúrat núna fyrir einum eða tveimur mánuðum eða á þessu ári? Það er eins og mig reki minni til þess að þessi umræða um húsið í Park Street í London, ef ég man rétt, sé 10 ára gömul og menn hafi vitað það fyrir 10 árum að leigutíminn var að renna út á því ágæta húsi. Einmitt á þeim tíma voru menn að velta því fyrir sér hvort það væri skynsamlegt að kaupa nýtt húsnæði eða endurnýja þennan leigusamning. En það er akkúrat á þessum síðustu dögum ársins 1997 sem menn taka af skarið og vilja finna þessu stað í fjáraukalögum upp á 290 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég hef enga sérþekkingu frekar en kannski nokkur hér inni á því hvernig húsaverð verður til í stórum borgum heimsins. En það vakti athygli mína, af því að ég ræði nú þessar fjárfestingar íslenska ríkisins á erlendri grundu í einni bendu, að sambærileg hús og þessi ágæti sendiherrabústaður okkar í Washington, þangað sem ég hef aldrei komið og get þess vegna ekki metið það á eigin forsendum, kosti um það bil 250 millj. kr. þar ytra. Það getur vel verið að það sé raunvirði. En við getum nú byggt býsna vel heima fyrir þá peninga og allra sæmilegasta hús. Endurbæturnar eru upp á 95 millj. samkvæmt svari utanrrn. við fyrirspurninni og núvirði hússins sem er að hruni komið er um 60 millj. þannig að þeir telja sig ,,græða`` á þessum endurbótum á húsnæðinu um það bil 100 millj. kr. Ég ætla ekki að vefengja þessa útreikninga. En lái mér hver sem vill, virðulegi forseti, þó að ég vilji eilítið staldra við og spyrja um hreint og beint hvort fjárln. hafi farið í gegnum þessar forsendur lið fyrir lið með okkar sérfræðingum, af því að vísað var til þeirra. Er það virkilega svo að ekki verði komist af með minna í henni Washington fyrir ágætan núverandi og væntanlegan sendiherra Íslands þar í bæ en húsnæði upp á 250 millj. kr.? Og er það virkilega þannig í henni London að ekki verði hægt að búa að ágætum núverandi og væntanlegum sendiherrum þar fyrir minna en 290 millj. kr.? Ég segi aftur: Lái mér hver sem vill. Ég einfaldlega spyr. Ekki síst spyr ég í ljósi þess að ég leitaði eftir svörum um byggingarkostnað nýs og glæsilegs sendiráðs í Berlín af því að ég þekkti aðeins til upphafs þess máls af því að sú ákvörðun var tekin þegar ég var aðili að ríkisstjórn og um það var samkomulag að ráðast í þá byggingu með öðrum Norðurlöndum. Ég hygg að það hafi verið hárrétt ákvörðun á þeim tíma þó að margir hafi dregið dálítið lappirnar einmitt í ljósi þess kostnaðar sem þá var yfirlýstur. Sá kostnaður hefur að vísu hækkað í hafi um einar 100 millj. ef ég man rétt frá því að sú ákvörðun var tekin. Þar var lóðaverð mjög hátt og þar var lagt talsvert í arkitektúr. En engu að síður erum við að tala um heilt sendiráð, mikið ,,monumentum`` á lykilstað í Berlín fyrir einar 350 millj. þannig að við erum eiginlega komin á það að sendiherrabústaðirnir eru farnir að slaga upp í þetta allt saman.

Virðulegi forseti. Er ekki ástæða til að við veltum þessu eilítið fyrir okkur? Og af þessu gefna tilefni hlýt ég að spyrja forsvarsmenn fjárln. og formann hennar beint fyrst og síðast hvort meira af slíku sé í vændum, hvort við eigum von á því að fleiri hús séu að hrynja úti í heimi þar sem Ísland er eignaraðili, hvort fleiri sendiherrar séu í hættu staddir vegna þess að hús séu að hruni komin og hvort við þurfum nokkuð að tína upp úr vösum skattborgara fleiri hundruð millj. kr. til að bjarga þessum aðilum frá bráðum bana eða bráðri hættu.

Ég er ekkert að gera þetta að neinu gamanmáli. Kannski hefur það farið fram hjá mér einhvers staðar í þessari umræðu, í þessum plöggum, við afgreiðslu þingsins við fjárlagagerðina fyrir komandi ár --- nú bið ég hv. þm. Jón Kristjánsson að veita orðum mínum athygli --- í þessum gögnum sem fylgt hafa frv. til fjáraukalaga og frv. til fjárlaga komandi árs, en hvernig og hversu miklum peningum á að verja til varanlegrar eignamyndunar í hinu nýja sendiráði í Helsinki til að mynda? Ég sé það hér að menn ætla sér að tína einhverja fjármuni til að búa það sendiráð tækjum. En einhvers staðar þarf sá sendiherra að búa. Er búið að kaupa hús fyrir hann og hvað á það að kosta? Er kominn á endanlegur og varanlegur samningur um það húsnæði sem sendiráðið er vistað í í augnablikinu? Það rifjast upp í því sambandi að hv. þm. Sturla Böðvarsson vakti á því athygli með réttu hér að hann hefði fyrst heyrt af þessari sendiráðsstofnun og þeirri fjárfestingu og skuldbindingu sem í var lagt í þeim efnum þegar hann fékk boðsbréfið við opnun þess sendiráðs. En ég spyr beint: Hvaða fjárfesting er þar í næstu og lengri framtíð? Og ég árétta þá spurningu líka af því að við erum að tala um raunverulegar stærðir. Þetta er engin skiptimynt. Er eitthvað fleira í vændum í þessum efnum? Er eitthvert húsnæði víða út um heim þannig á sig komið að það þarfnist bráðs viðhalds? Er leigusamningur einhvers staðar að renna út? Þurfum við að fara í stórar fjárfestingar af þessum toga á næsta ári og eigum við von á því að fjáraukalögin að ári verði eitthvað svipuð því sem er á þessu? Ég held að það sé óhjákvæmilegt, virðulegi forseti, að ræða þetta dálítið. Nú má enginn skilja orð mín þannig að ég vilji ekki búa vel að utanrrn. og sendimönnum okkar erlendis því að þeir gegna mjög mikilvægum störfum. Engu að síður eru þessar stærðir slíkar að allur almenningur hér heima botnar ekkert í þessu, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þó að ég hafi nú komið í ýmis sendiráð og suma sendiherrabústaði, þá á ég líka erfitt með að átta mig á þessum stóru tölum. En þetta er svipað því, þetta passar við þær stóru stærðir þegar menn fara mikinn, með réttu, um vandann í heilbrigðismálum. Við erum komin á sama stigið. Það er alveg bráðnauðsynlegt að fá þetta fram. Það er enginn bragur á því, virðulegi forseti, þegar maður skoðar niðurstöðutölur hinna einstöku ráðuneyta, afrekaskrána á yfirstandandi fjárlagaári, hvort sem ástæðurnar kunna að vera góðar eða slæmar, að sjá utanrrn. fara 17--18% fram úr með heildarumsvif upp á 2,6 milljarða kr. og biðja um og fá hér aukafjárveitingu upp á 500 millj. Það er enginn bragur á þessu, ekki nokkur. Menn hafa af því áhyggjur að heilbrrn. fari fram úr og vissulega eru þar háar tölur á ferð. Heilbrrn. fór fram úr með 1.981 milljón --- en 1.250 millj. þar af eru vegna atriða sem erfitt er að ráða við, þ.e. aukinna greiðslna vegna sjúkratrygginga og bótagreiðslna og til Tryggingastofnunar þannig að þegar það er frá talið þá er utanrrn. á svipuðu róli og heilbrrn. sem er með niðurstöðutölur upp á um það bil 50 milljarða kr. en utanrrn. með 2,8. Auðvitað kann að vera að þetta sé ekki sambærilegt að öllu leyti en við skulum hins vegar átta okkur á því þegar við ræðum þessi mál og setjum þau í ákveðið samhengi að láta ekki þessa veggi umlykja okkur þannig að við missum alveg tengsl við það sem fólkið er að tala um. Auðvitað er fólk að tala um þetta. Auðvitað er fólk með réttu að hafa áhyggjur af því hvernig sjúkrahúsunum reiðir af og auðvitað bregður fólki við þegar það heyrir tölur af þessum toga fyrir ágæta sendimenn okkar í útlöndum. Þetta er bara veruleiki sem við verðum að horfast í augu við. Það verður ekkert hjá því komist.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti, en hér erum við að ræða um forgangsröðun og það má nálgast það viðfangsefni með ýmsum hætti. Ég kaus að gera það svona að þessu sinni.