Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:39:48 (2423)

1997-12-16 21:39:48# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu að ráði en ég þakka hv. síðasta ræðumanni, 9. þm. Reykn., fyrir að taka upp það mál sem ég gerði nokkuð að umtalsefni við 2. umr. fjáraukalaga, þ.e. hina taumlausu frammúrkeyrslu utanrrn. Satt best að segja kom mér nokkuð á óvart hversu erfitt reyndist að fá einhverja umræðu í gang um það mál. Ég fór að velta því fyrir mér hvort frammúrkeyrslur eða umferðaróhöpp sumra hæstv. ráðherra væru heilagari en önnur. A.m.k. gildir það ekki um hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson og hann tók hér upp þetta mál sem mér finnst fullkomlega eðlilegt að gert sé og setti í samhengi við ýmislegt annað sem hér er til umræðu.

Ég hlustaði á frsm. meiri hlutans tala mikið um það, og nú í andsvari síðast, hv. þm. Jón Kristjánsson, að það verður að horfast í augu við raunveruleikann og horfast í augu við það að þetta væru óumflýjanleg útgjöld og það yrði náttúrlega að búa vel að sendimönnunum erlendis o.s.frv. Og þar með eru komin rökin, fyrir hverju? Fyrir því að sulla út hálfum milljarði í aukafjárveitingar til utanrrn. og fara 20% fram úr fjárlögum á einu ári. Ég hef ítrekað í þessum umræðum, bæði við 1. umr. og 2. umr., gert vanda einnar stofnunar í landinu að umtalsefni sem ég tel að uppfylli öll þessi skilyrði, sem sagt að óumflýjanlegt sé að horfast í augu við vandann og allar efnislegar forsendur liggi fyrir til þess að bregðast við honum. Því hefði ég áhuga á því að hv. þm. Jón Kristjánsson svaraði því, herra forseti, hvers vegna ekki er hægt að ganga frá málefnum Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eins og þessara fínu sendiráða úti í löndum ef við getum orðið sammála um að efnislegar forsendur séu hliðstæðar í málunum? Eru þau eitthvað merkilegri en starfsemi mikilvægasta sjúkrahússins utan Reykjavíkursvæðisins? Eiga að gilda önnur lögmál um þau eða er það kannski af því að það er einhver annar húsbóndi sem menn þora ekki að standa uppi í hárinu á? Ég verð að segja alveg eins og er með fullri virðingu fyrir hæstv. utanrrh. sem því miður er ekki við þessa umræðu frekar en hann var við 2. umr. og hefur ekki blandað sér í umræður um þessi embættisverk sín sem hafa þó eðlilega orðið tilefni skoðanaskipta ítrekað í tengslum við þessi fjáraukalög: Er það vegna þess hver þar ræður húsum sem menn fá þessa sérstöku meðferð? Hvað á þessi mismunun að þýða?