Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:48:16 (2427)

1997-12-16 21:48:16# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:48]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta hv. sjútvn. sem legið hefur frammi á þskj. 497 þar sem grein er gerð fyrir starfi nefndarinnar við umfjöllun um málið og brtt. meiri hlutans á þskj. 498.

Breytingartillögurnar eru um tvö efnisatriði eða tvær breytingar á efni frv. Annars vegar að fellt verði niður það skilyrði að skip hafi haft leyfi til að veiða með aflamarki a.m.k. sjö ár áður en þau geti nýtt sér endurnýjunarreglur þær sem gert er ráð fyrir í frv. Þess í stað geti eigandi skips einungis nýtt sér stækkunar- eða breytingarreglur þessar einu sinni á hverjum sjö árum.

Hitt efnisatriðið er að sjútvrh. skuli með reglugerð mæla fyrir um hvernig rúmtala skips skuli reiknuð. Að öðru leyti kemur fram í brtt. atriði sem varðar einungis form 1. gr. þess, þ.e. í a-lið brtt.

Herra forseti. Rétt er að fram komi að meiri hlutinn er ekki algerlega á einu máli heldur hefur a.m.k. einn gert fyrirvara við málið. Þess má geta að málið er komið fram eftir undirbúningsvinnu starfshóps sem var sammála en greinir þannig frá að auðvelt er að rekja hvernig hans niðurstaða hefur orðið málamiðlun. Ég ætla, herra forseti, með leyfi yðar að benda á fáein almenn atriði sem starfshópurinn varð sammála um og lýst er í frv.

Í fyrsta lagi voru nefndarmenn sammála um að ekki væri hægt að hafa sérstakar endurnýjunarreglur fyrir einstaka skipaflokka. Í öðru lagi voru menn sammála um að ekki væri hægt að leggja til skilyrtar stækkunarheimildir og í þriðja lagi voru menn sammála um að sú mismunun sem fælist í núgildandi reglum á milli breytinga og nýsmíði ætti ekki rétt á sér.

Auk þessa, herra forseti, kemur skýrt fram í fskj. með frv., sem er skýrsla þessa starfshóps, að hann telur ekki eðlilegt að viðhafa þá sérstöðu og sértæku reglu sem gilt hefur um skip sem skráð voru fyrir 1. janúar 1986. Þau hafa meiri réttindi en önnur til stækkunar. Ljóst er, herra forseti, að margt mælir með því að við gerum grundvallarbreytingar á þeim takmörkunum sem í gildi hafa verið um endurnýjun skipaflotans þó ekki væri nema vegna þess að nýjar kröfur um aðbúnað og öryggi áhafna hafa séð dagsins ljós og allmörg útgerðarfyrirtæki hafa talið núgildandi reglur standa í vegi þeirra til að ganga til móts við þessar kröfur.

Í öðrum lögum um fiskveiðistarfsemi er gert ráð fyrir betri búnaði og betra skipsrými til meðferðar afla og vinnslu úti á sjó en reiknað var með í fyrri reglum um þetta. Í dag menn þurfa menn ugglaust að hafa með sér meiri veiðarfærabúnað heldur en áður. Þeir fara lengra til veiða fyrir svo utan t.d. mál sem við ræddum fyrr í dag á þinginu um að ljóst mætti vera að innleiðing tækninýjunga mundi krefjast stærri skipa en áður vegna þeirra krafna sem nú liggja fyrir um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Að ekki sé talað um það sem þegar liggur fyrir um þörf á að flytja aflann í kælitönkum.

Fyrir utan þessi efnislegu atriði, herra forseti, hafa menn lengi deilt um hvort öllu lengur sé efnahagsleg nauðsyn að viðhafa stýrikerfi af þessu tagi sem í raun er forsjárhyggja eða hvort komin sé upp sú aðstaða að unnt sé að hafa almennar leikreglur sem gefa forsjármönnum og stjórnendum fyrirtækja í sjávarútvegi langvarandi aðstöðu til að standa sjálfir ábyrgir fyrir fjárfestingarstefnu þeirra.

Herra forseti. Ég hygg að þeir sem skipa meiri hluta hv. sjútvn. séu sammála um að takmark þess að fjalla um þessi lög sé að innan skamms, hvaða mælikvarða sem menn hafa, verði afnumdar reglur sem takmarka heimildir fyrirtækja til fjárfestinga af þessu tagi. Við föllumst hins vegar á tillögur starfshópsins sem birtist í frv. um að ganga skref það sem frv. felur í sér.

Meginefni þeirrar brtt. sem við gerum við frv. er að útgerðarfyrirtæki hafi þessa heimild á sjö ára fresti en ekki einu sinni eftir sjö ár og ei meir.