Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:28:36 (2432)

1997-12-16 22:28:36# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SighB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:28]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tók áðan eftir því að í ræðu frsm. með nefndaráliti meiri hluta sjútvn. tók hann svo til orða að a.m.k. einn þeirra þingmanna sem að nefndarálitinu stæðu hefði fyrirvara. Nú vil ég gjarnan að hv. frsm. meirihlutaálitsins hlýði á mál mitt því að ég hef spurningu fram að færa við hann og hún er þessi: Hvað átti hv. þm. við þegar hann sagði að a.m.k. einn þeirra þingmanna sem skrifuðu undir álit meiri hlutans væri með fyrirvara því að á nefndarálitinu sjálfu kemur ekki fram að það sé nema einn og ég spyr því frsm. meiri hlutans: Eru fleiri með fyrirvara við málið í hópi meirihlutamanna og hvernig stendur þá á því að þeir skrifa ekki undir með fyrirvara eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gerði? Það kemur okkur nefnilega ekki á óvart sem sitjum í sjútvn. að fleiri þingmenn en Guðmundur Hallvarðsson í meiri hlutanum hafi fyrirvara í málinu. Nefni ég þá sérstaklega þá hv. þm. Stefán Guðmundsson og Hjálmar Árnason sem var ekki að heyra annað á umræðum í sjútvn. en væru sammála minni hlutanum eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sem skrifar undir álit meiri hlutans með fyrirvara og lýsir því úr ræðustól að hann sé sammála okkur sem stöndum að áliti minni hlutans. Með öðrum orðum, öll ræða hans gengur út á að færa sömu rök eins og talsmenn minni hlutans hafa fært fram fyrir niðurstöðum sínum en síðan segist hv. þm. ætla að standa að meirihlutaálitinu sem leggur til að frv. verði samþykkt en sjálfur segist hann ekki ætla að samþykkja það.

[22:30]

Virðulegi forseti. Þetta er alveg dæmigert um afstöðu Sjálfstfl. og sjálfstæðismanna. Stór hluti sjálfstæðismanna í sjútvn. Alþingis er sammála minni hlutanum. Samt skrifa þeir allir að undanteknum einum undir án fyrirvara. Sá sem skrifar undir meirihlutaálitið þar sem lagt er til að frv. sé samþykkt með fyrirvara gerir grein fyrir fyrirvara sínum úr ræðustól. Fyrirvarinn er þess efnis að hann er sammála okkur minnihlutamönnum í öllum atriðum, ætlar ekki að greiða atkvæði með frv. sem hann leggur samt sem áður til að verði samþykkt með þessum orðum, virðulegi forseti: ,,Meiri hlutinn leggur áherslu á að frv. verði samþykkt svo breytt.``

Með öðrum orðum þá skrifar hv. þm. undir meirihlutaálit þar sem þetta er lagt til með fyrirvara, rökfærir á móti ræðu varaformanns nefndarinnar og formælanda meiri hlutans og bítur svo höfuðið af skömminni með því að lýsa því yfir að hann ætli ekki að standa að samþykkt frv. með þeim breytingum sem meiri hlutinn sem hann skrifar undir með leggur til að verði samþykktar. Þetta er furðulegur málflutningur og dæmigerður fyrir sjálfstæðismenn, sem sagt að geta í hvoruga löppina stigið en reyna samt að standa í báðar, vera sitt hvorum megin við girðinguna, sitja á girðingunni og sitja þar meðan sætt er, vera sammála þeim sem standa okkar megin við girðinguna, lýsa því yfir að hann leggi til að samþykkt verði álit þeirra sem standa hinum megin við girðinguna en segjast síðan sjálfir ekki ætla að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Þetta er furðuleg afstaða í samræmi við stefnu Sjálfstfl. og mikið ánægjuefni þegar það kemur ítrekað fram eins og hér hefur verið.

Nú ætla ég ekki að endurtaka þau rök sem hafa verið flutt úr þessum ræðustól af fulltrúa minni hlutans, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, og hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni sem er þingmaður með fyrirvara. Ég ætla ekki að endurtaka þau rök en ég ætla aðeins að leggja áherslu á eitt.

Það hafa verið send út ákveðin skilaboð í þessu máli. Fyrst frá hæstv. sjútvrh., síðan í umræðum hér og m.a. frá meirihlutamönnum. Skilaboðin til útgerðarmanna eru þessi: Þær reglur sem hér á að setja eiga ekki að gilda til frambúðar. Það er tímaspursmál hvenær þær verða afnumdar, hvort það er eitt ár, tvö ár, þrjú ár, það er bara spurning um tíma. Þetta eru skilaboðin sem send eru út. Með þessu er verið áð skapa mikla óvissu í greininni. Alþingi er sjálft að skapa þá óvissu og hæstv. ráðherra átti þar frumkvæði og það er skylda Alþingis að taka á þeim málum þannig að óvissunni sé eytt. Það undarlega er, virðulegi forseti, að meiri hluti sjávarútvegsnefndarmanna, líka í hópi þeirra sem skrifa undir meirihlutaálitið, er sammála okkur í minni hlutanum um hvernig óvissunni skuli eytt. En þeir hv. þingmenn sem eru sammála okkur eru hins vegar ekki menn til að standa við skoðanir sínar. Þeir bera því fulla ábyrgð á því óvissuástandi sem verið er að skapa. Það er umhugsunarvert að hæstv. sjútvrh. sem berst á hæl og hnakka gegn hvers konar gjaldtöku af sjávarútvegi í formi veiðileyfagjalds eða með öðrum áþekkum hætti hikar ekki við að leggja á útgerðina þær miklu álögur sem verið er að gera með þessum endurnýjunarreglum og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti áðan þar sem gersamlega að þarflausu er verið að leggja á útgerðir óþarfa gjöld allt að þeirri fjárhæð sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon lýsti áðan, 200 millj. kr. Það er ekki verið að leggja gjöldin á útveginn í almannaþágu. Það er ekki verið að leggja gjöldin á til þess að standa undir einhverjum kostnaði við einhverja þjónustu við útveginn eða í almannaþágu. Það er verið að leggja útgjöld á útgerðina gersamlega að þarflausu og það er verið að senda þau skilaboð til manna að þessi regla verður afnumin en guð má vita hvenær. Svona skilaboð getur Alþingi Íslendinga ekki sent því að hlutverk okkar á að vera að eyða óvissu af þessum toga.

Hér hafa verið tekin mörg dæmi, herra forseti, um göt á þeim reglum sem gilda í dag. Ætli þetta komi samt ekki verst niður á gömlu tréskipunum sem eru enn til hér. Þau verða ekki lengd eða breikkuð með sama hætti og er þó hægt að gera með stálskipin og menn eiga engan kost samkvæmt þeim reglum sem gilda um endurnýjun skipa að taka skynsamlega á endurnýjunarþörf þessara báta sem eru vissulega til og skipta verulegu máli, a.m.k. í sumum byggðarlögum hvað varðar atvinnulíf og atvinnustarfsemi. Útgerðarmönnum þessara báta eru settar hömlur við endurnýjun þeirra sem eru sennilega meiri en hjá flestum öðrum skipum og þau geta nánast enga björg sér veitt, ekki gert neinar breytingar til að aðlaga báta sína að nýrri tækni og framförum í fiskveiðum, hvað þá heldur að geta gert neinar breytingar til þess að búa betur að mannskapnum um borð. Þetta er eitt af því sem er óeðlilegt við þær reglur sem nú gilda. En ég ítreka það, herra forseti. Sjútvrh. og Alþingi eru að senda skilaboð um að þær reglur sem verið er að setja nú eða breyta sé ekki ætlað langt líf. Það er ekki bara stjórnarandstaðan sem hefur verið að lýsa skoðunum sínum í því heldur stjórnarþingmenn sem hafa komið upp í ræðustól og gert slíkt hið sama og sjálfur ráðherra á frumkvæði að því. Það er ekki hægt þegar um svo mikla fjármuni er að tefla og hér hefur verið lýst að senda slík skilaboð út frá þessari stofnun sem ber skylda til að eyða óvissu í þessum efnum og gera það með þeim hætti sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson með fyrirvara, fyrirvaraþingmaðurinn, hefur sjálfur tekið undir að rétt og sjálfsagt sé að gera. Hann ætti þá að standa við þau orð sín og þær skoðanir sínar með því að greiða atkvæði í samræmi við málflutning sinn úr ræðustól áðan en að flytja ekki mál minni hlutans en standa að áliti meiri hlutans.