Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:50:45 (2440)

1997-12-16 22:50:45# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:50]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki sagt úr ræðustól eitt einasta orð af því sem fór á milli nefndarmanna, ekki eitt einasta orð. Ég spurðist fyrir um afstöðu nefndarmanna vegna ummæla frsm. meiri hlutans og ég fékk svar við því og það svar er mér fullnægjandi. En hv. þm. með fyrirvarann, undir hvað skrifar hann? Hann skrifar undir meirihlutaálit sem endar með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Meiri hlutinn mælir með samþykkt`` --- skrifað með svörtu letri: samþykkt --- ,,frumvarpsins með svofelldum breytingum:``

Og hvers efnis er fyrirvari hans? Fyrirvari hans er sá að hann ætlar sér ekki að samþykkja frv. svo breytt. Hvernig í ósköpunum getur maður fremur setið á girðingu en svona, að skrifa undir álit þar sem lagt er til að eitthvað verði samþykkt óbreytt og fyrirvarinn er fólginn í því að hann lýsir því úr ræðustól að hann mundi ekki samþykkja það. Hann er með öðrum orðum á móti því. Þetta kalla ég nú að sitja á girðingunni og vera fastur. (GHall: Þetta er ...)