Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:58:52 (2445)

1997-12-16 22:58:52# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, KPál
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:58]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Þetta hafa verið ansi fjörugar umræður og undarlegt er hvernig menn geta lagt út af þeim breytingum sem hér er verið að leggja til og gert tortryggilegar með mjög svo vafasömum málflutningi að mínu mati.

Ég er einn af þeim sem sátu í þeirri nefnd sem hæstv. sjútvrh. skipaði til að endurskoða úreldingarreglur fiskiskipa. Við sem í þeirri nefnd sátum höfðum að sjálfsögðu mjög mismunandi skoðanir á því hvernig best væri staðið að því að breyta reglunum, hvort eðlilegt væri að vera með nokkrar reglur og hvort að það sem menn síðan komust að samkomulagi um að yrði sett fram í formi álits, væri nægjanlegt til þess að mæta þeim kröfum sem hafa komið fram í þinginu, í þjóðfélaginu, hjá sjómönnum og útgerðarmönnum, til að geta mætt öryggiskröfum sem allir eru sammála um, aðbúnaðarkröfum sem allir eru sammála um og eins kröfum um bætta meðferð aflans sem menn hafa margítrekað bent á að ekki hefur verið hægt að framfylgja vegna þess að úreldingarfyrirkomulagið hefur verið allt of fast í forminu. Ekki hefur verið nokkur sveigjanleiki fyrir skip sem eru byggð eftir 1986 til að breyta því sem nauðsynlegt er talið að bestu manna mati og áliti þannig að þessi nefnd sem skipuð var af hæstv. sjútvrh. átti að taka á þessum málum og hún gerði það.

Ég var einn af þeim í nefndinni sem vildu ganga lengra en nefndarálitið gerði ráð fyrir og við vorum nokkrir í nefndinni sem vildum afnema þessar reglur algerlega vegna þess að við töldum og teljum reyndar enn að aflaheimildir skipa og útgerðarform ráði því í sjálfu sér nákvæmlega hversu skipin eiga að vera stór. Útgerðin og aflahlutdeildin ráða því og ekkert annað. Það er svo annað mál þegar þingmenn koma saman sem standa saman að meirihlutasamstarfi að þeir komast að samkomulagi. Það samkomulag gildir svo lengi sem menn eru sammála um það, eins og kom fram hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni hér áðan.

[23:00]

Þær reglur sem hér verða samþykktar væntanlega og lagðar eru fram með þessu frv. gera ráð fyrir því að öll meiri háttar breyting sem lýtur að öryggismálum, aðbúnaði og meðferð afla rúmist innan kerfisins. Minni skip sem um er að ræða, eins og trébátar sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson minntist sérstaklega á, eiga öll möguleika á því, a.m.k. langflest að ná allt að 60% stækkunarmöguleikum með þessum reglum þannig að þeir bátar eru ekkert skildir eftir úti á gaddinum eins og hv. þm. orðaði það hér áðan, herra forseti, og finnst mér slæmt að hann skuli senda þau skilaboð út til þjóðarinnar og til þessara útgerðarmanna að þeir hafi ekki fengið neina lausn með þessum reglum sem hér eru til umræðu. Það er alvarlegt þegar verið er að vekja upp tortryggni eins og sem hv. þm. reyndi að gera hér áðan.

Þó svo að nefndin hefði viljað ganga lengra og sjái fyrir sér að einhvern tíma verði farið lengra, þá telur hún að þetta sé fullnægjandi miðað við ástandið eins og það er í dag. Ég vil bara segja af þessu tilefni að reglur sem lúta að útgerð og skipum hljóta alltaf að vera til endurskoðunar meira og minna svo lengi sem flotinn breytist og svo lengi sem menn sækja á mismunandi mið og mismunandi útgerðarform ríkja. Enginn vill hafa það fyrirkomulag sem ríkti hér í eina tíð, að menn voru að fara inn og út úr hólfum með því að taka stefnið framan af og setja það á aftur eftir því hvort þeir voru fyrir innan eða utan hólfið. Enginn vill vera áfram í því útgerðarformi þar sem menn eru að innsigla vélar sínar til að komast inn í ákveðin hólf. Enginn vill sjá áfram það fyrirkomulag sem ríkti og ég hygg að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi helst verið að óska eftir þannig að ég held að með þeim breytingum sem við leggjum hér til höfum við mætt flestum ef ekki öllum þeim kröfum sem hafa verið uppi um breytingar og í þeim viðræðum sem ég hef átt við við mjög marga útgerðarmenn og eigendur smábáta kom fram að þeir telja að þessar breytingar fullnægi þeim þörfum sem þeir hafa í dag til breytinga á sínum skipum. Ég vil segja að ég hef hitt þó nokkuð marga útgerðarmenn, meira að segja fyrir vestan þar sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er þingmaður, sem hafa haft hugmyndir um breytingar á skipum sínum sem falla akkúrat inn í það form sem við höfum lagt til, þessi nefnd, og er hér lagt fram í frv. og var lýst hér ágætlega af hv. þm. Árna Ragnari Árnasyni, flm. meirihlutaálitsins.