Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:06:17 (2446)

1997-12-16 23:06:17# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í viðbót inn í þá umræðu sem hér hefur orðið. Ég tel að aðstæður í kringum afgreiðslu þessa máls hafi skýrst það vel í umræðunni að ekki þurfi að fjölyrða um það. Ég vísa þar sérstaklega til orðaskipta hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og stjórnarsinna eða flutningsmanna meirihlutanefndarálits. Það dró mjög rækilega fram það sem við höfum verið að halda fram, að mikil óvissa væri fólgin í framtíð þessa takmörkunarkerfis eins og frá því væri verið að ganga hér þegar beinlínis lægju fyrir yfirlýsingar eða orð í þá átt að menn sæju það ekki fyrir sér til frambúðar, en þó vildu menn að það héldi áfram um sinn á einhvern hátt og þá með þeim rýmkunum, til að byrja með, sem á því er verið að leggja til nú.

Þetta er að mínu mati alveg fullnægjandi til þess að rökstyðja það eða afhjúpa að auðvitað er verið að ýta mönnum inn í þessa framtíð í mikilli óvissu um hvað við tekur, þ.e. hversu lengi þessar reglur verða við lýði, hvaða grunnur verður undir fjárfestingum sem menn taka og þurfa að kosta nokkru til varðandi endurnýjun fiskiskipa vegna þess að menn þurfa að kaupa út þessa úreldingu.

Varðandi það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði áðan, 3. þm. Vestf., að það væri enginn að borga neinum neitt vegna þess að menn borguðu hver öðrum og þar af leiðandi kostaði þetta ekki neitt þá er það við þetta að athuga, herra forseti, að í raun og veru breytir það engu fyrir útgerðarmann sem hyggst endurnýja sitt skip og á gamalt og rúmlítið skip fyrir og þarf að bæta mjög miklu við sig, hverjum hann borgar. Krónurnar eru jafnmargar sem þarf að bæta við í dæminu. Og þar sem mergurinn málsins er sá að þarna er þröskuldur sem þarf að yfirstíga í hverju einasta tilviki og með þeim rúmmetrum sem menn þurfa að skapa á móti. Menn hafa jafnvel tilhneigingu til að verðleggja rúmmetrana sem þeir sjálfir eiga og leggja inn í púkkið því þeir standa kannski frammi fyrir því að meta arðsemi þess að hætta, að selja sína útgerð og veiðiheimildir og rúmmetrana með, eða endurnýja. Og þegar þeir stilla reikningsdæminu upp, þá koma rúmmetrarnir þarna á fullu verði inn í. Það liggur alveg í hlutarins eðli. Þeir hljóta að gera það á meðan þetta eru framseljanleg verðmæti. Með öðrum orðum, sá fórnarkostnaður sem liggur í rúmmetrunum er þröskuldur sem þarf að yfirstíga í arðsemismati varðandi hverja einustu nýfjárfestingu í flotanum. Þannig hefur það verið. Ég hef farið í gegnum mörg arðsemisdæmi með útgerðarmönnum þar sem menn hafa velt fyrir sér möguleikunum á því að fara í tiltekna endurnýjun, ekki síst á tilteknum missirum í sambandi við það að endurnýja nótaskipaflotann og búa okkur betur út til að nýta hina stóru stofna uppsjávarfiska þar sem við erum með hörmulega gamlan og úreltan flota eða vorum a.m.k. að verulegu leyti. Endurnýjunin hefur falist í að kaupa 20 ára gömul skip frá nágrannaþjóðunum sem verið er að leggja þar. Það er sorglegt að við skulum ekki vera í færum til að taka inn ný og fullkomin skip sem bjóða upp á hágæðameðferð á hráefni og annað því um líkt. Fyrir þessu hef ég talað mörg undanfarin ár og barist. En maður hefur aftur og aftur rekist á þennan þröskuld í dæmunum. Það munar um það að þurfa að yfirstíga þarna kannski viðbótarkostnað, tilbúinn kostnað í raun og veru, sem mælist í tugum og hundruðum milljóna króna.

Nú er engin deila um það í sjálfu sér þegar komið er aflamark, við nýtingu t.d. uppsjávarstofna að það er fáránlegt að skipta sér af því hvernig skipin, sem útgerðarmenn sem eru að nýta sinn eigin kvóta ár eftir ár, eru úr garði gerð. Og að þeir skuli ekki geta tekið inn skip með kælitönkum og einangruðum lestum sem bjóða upp á hágæðameðferð á hráefni. Hverju halda menn að t.d. munaði á sumarvertíðinni í loðnu að hafa kælda tanka þegar verið er að sækja loðnu eða síld mörg hundruð mílur norður í haf? Það munar því hvort nokkurt einasta kvikindi kemst í manneldi eða ekki. Það er bara þannig. Og það er alveg augljóst að menn hafa sóað eða misst af milljörðum króna í töpuðum möguleikum í manneldisvinnslu á loðnu og síld og jafnvel fleiri uppsjávartegundum sem við gætum verið farnir að nýta okkur í miklu ríkari mæli en ella er, kolmunna, makríl og jafnvel spærlingi o.s.frv., í og með vegna þess að við höfum ekki átt nógu góðan flota. Það er ljóst. Við höfum t.d. ekki átt öflug skip sem gátu verið jöfnum höndum á nóta- og flottrollsveiðum og voru með kældar lestar. Á þessu verður hv. 3. þm. Vestf., Einar Oddur Kristjánsson, að átta sig. Þetta snýst ekki um það hverjum er borgað heldur hitt að þarna er þröskuldur sem þurft hefur að yfirstíga. Ég minni á að ekki er langt síðan samkeppnin var ekki bara við einhverja aðra útgerðarmenn um rúmmetrana. Það er ekki langt síðan opinber sjóður bauð í rúmmetrana á móti útgerðarmönnunum og menn voru að keppa við kauptilboð Úreldingarsjóðs og síðan Þróunarsjóðs eða Hagræðingarsjóðs eða hvað hann nú hét.

Og til þess að menn séu síðan ekki að rífast um staðreyndir sem liggja fyrir á prenti, þá ætla ég aðeins að fara yfir það hvenær takmarkanir á stærð fiskiskipastólsins komu til sögunnar og taka undir það sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fór hér réttilega með en aðrir mótmæltu ranglega, að reglur um endurnýjun fiskiskipa og takmarkanir á stærð fiskiskipastólsins eru mun eldri en kvótakerfið. Það var strax upp úr útfærslu landhelginnar 1975--1976 sem menn fóru að ræða um nauðsyn þess, í kjölfar þess að dökkar skýrslur komu um ástand þorskstofnsins, að takmarka einhvern veginn afkastagetu flotans og/eða stærð hans. Ég held að einhverjir hér hljóti að muna alla umræðuna um of stóran fiskiskipaflota sem var tískuorð í umræðum um sjávarútvegsmál hartnær jafnlengi og kvótinn hefur verið það núna eða auðlindaskattur og eitthvað því um líkt.

Strax á árunum 1977--1978 fóru þær ríkisstjórnir sem þá sátu að grípa til aðgerða í þessu sambandi. Í fyrsta lagi var sett innflutningsbann á skip. Í öðru lagi voru lánveitingar úr opinberum sjóðum til skipa takmarkaðar og á árunum 1979--1980 koma til sögunnar reglur sem beinlínis kveða á um að sambærileg skip eða skip af svipaðri stærð skuli hverfa úr notkun fyrir önnur sem koma í staðinn inn í flotann þannig að beinar endurnýjunarreglur í því formi eru a.m.k. þremur eða fjórum árum eldri en kvótakerfið. Það kom að vísu fyrir á þessum árum að sögn að menn gleymdu togurum en við skulum ekki fara út í það mál. Þeir skutu óvænt upp kollinum af því að gefin höfðu verið vilyrði fyrir því að þeir væru keyptir frá útlöndum svona einhvern tíma á kosningaferðalögum eða einhvers staðar, en það er önnur saga.

Þessar reglur koma sem sagt til sögunnar á þessu árabili, frá 1977--1979 og 1980 og síðan beinar takmarkanir frá árunum 1984 og síðar. Að vísu er það alveg rétt að frá árunum 1987--1991 giltu reglur um að skip mátti vera allt að 33% stærra, þriðjungi stærra, sem sagt talsvert rýmri en nú er verið að leggja til þar sem einungis er talað um stækkun upp á 25%. En það er síðan eftir stjórnarskiptin 1991 sem hinar stífu úreldingarreglur voru settar sem verið hafa í gildi þangað til þá nú að þeim verður e.t.v. breytt með þessu frumvarpi.

Herra forseti. Ég vona að þessi upprifjun nægi til þess að menn þurfi ekki að vera að deila um þetta atriði sem liggur allt saman fyrir í skjalfestum heimildum. Ef menn vilja vita um tvær ágætar heimildir til að lesa sér til um þetta þá er önnur skýrsla tvíhöfða nefndarinnar frægu frá sínum tíma og svo kom út ágæt bók í fyrrahaust um sjávarútvegsmál þar sem talsvert er farið yfir þessi mál.