Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:15:29 (2447)

1997-12-16 23:15:29# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:15]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Sem áheyrnarfulltrúi í sjútvn. vil ég taka fram að ég styð álit minni hluta sjútvn. í þessu máli. Við kvennalistakonur höfum ávallt verið hlynntar því að stærð fiskiskipaflotans mótist af þörfum þannig að offjárfesting verði í lágmarki. Í aflamarkskerfi ætti þessi hagkvæma stærð að koma af sjálfu sér og því er afstaða minni hlutans eðlileg í þessu máli.

Afstaða meiri hlutans endurspeglar þá furðulegu afstöðu sem var mótuð fljótlega eftir að aflamarkskerfið komst á, þ.e. að settar voru strangar stækkunarreglur sem að mínu mati endurspegla tvennt. Í fyrsta lagi hræðslu þeirra sem fyrir eru í flotanum við að missa eitthvað af sínu ef aðrir stækka meira en þeir sjálfir og það endurspeglar aftur vantrú á að aflamarkskerfið sé komið til að vera.

Sú umræða sem hér hefur átt sér stað sýnir að mínu mati það fáránlega ástand sem nú ríkir í fiskveiðistjórnarkerfinu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem frv. kemur inn í hv. sjútvn. sem hefur þær afleiðingar að út koma tvö nefndarálit oft með nokkrum fyrirvörum og skilaboðin sem fara út eru greinilega þau að verið sé að tjalda til einnar nætur, að aðeins sé verið að hrófla við því kerfi sem fyrir er og allir sjá að það getur ekki staðið svona til lengdar.

Mitt mat er að þetta frv. sé fullkomlega gagnslaust, ekki síst eftir þá umræðu sem hér hefur átt sér stað í kvöld og rétt væri að draga það til baka og fara að ráðum minni hlutans. En þetta úrelta kerfi lifir áfram og nú á að stækka flotann með tilheyrandi aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda og það væri fróðlegt að vita hvort tekið hafi verið mið af þeirri nýju stöðu sem nú er komin upp vegna Kyoto-samningsins þegar þetta frv. var samið, þ.e. hvort horfst hafi verið í augu við það að þörf sé á að minnka mengun vegna fiskveiðiflotans. Hvernig væri t.d. að heimila eingöngu stækkun á þeim skipum sem nota vistvænna eldsneyti en önnur? Ég slæ þessu fram hér að lokum, hæstv. forseti, en ég tel að þetta sé óþarft frv. og ráðlegra væri að fara að tillögum minni hlutans.