Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:22:18 (2450)

1997-12-16 23:22:18# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:22]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem hv. þm. misskildi var að þetta frv. væri óþarft eins og hann sagði. Þetta frv. er mjög þarft. Þetta frv. er um það að slaka á þessum endurnýjunarreglum, úr stuðlinum 1:1 niður í stuðulinn 1:0,7 eins og áður var. Það var talin og er talin mikil nauðsyn á því að núna væri ástæða til að slaka aðeins á þessu en alls ekki að hætta við þetta kerfi. Það er því mikill misskilningur að segja að flutningur þessa frv. sé óþarfur. Það var það sem hún misskildi.

Í öðru lagi ber þess að geta að mjög margs konar kerfi eru í fiskveiðistjórnun í heiminum. Enginn hefur orðað það harðar og tekið meira upp í sig en sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins, Emma Bonino, sem hefur haldið óteljandi ræður og skrifað óteljandi greinar um það. Það er sama hvaða kerfi við notuðum við fiskveiðistjórnunina því ef við hefðum ekki jafnframt einhverja stjórn á flotastærðinni, þá væri alveg víst að tilraunin til að stjórna mundi mistakast. Þetta er sú kona sem getið hefur sér mest orð í Evrópu fyrir stjórnunarhæfileika sína enda er hún mest metin af öllum stjórnmálakonum í Evrópu um þessar mundir eða alla vega svona í hærri hæðunum og það er þá ástæða fyrir þær konur sem hafa áhuga á sjávarútvegsmálum að hugsa til þess hvað hún hefur viljað leggja til þessara mála vegna þess að hún talar ábyggilega af mikilli reynslu. Hörmulegt ástand hjá Evrópubandalaginu í flotastærðinni er náttúrlega að plaga þá mjög mikið og allir neita að fara eftir þessum reglum, láta setja á sig reglur um stærð flotans. Við vorum þeir lánsmenn að gangast undir þessi jarðarmen. Við vorum þeir lánsmenn og við eigum að fagna því.