Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:30:48 (2454)

1997-12-16 23:30:48# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, Frsm. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:30]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. hafi á engan hátt útskýrt þau viðhorf sín sem fram komu áðan og ég óskaði eftir að hann skýrði frekar. Ég var ekkert að fjalla um það í ræðu minni að hér ættu að gilda lög og reglur. Það sem ég talaði um er sú miðstýringarárátta sem í því felst að vera með tvöfalt kerfi við stjórn fiskveiða hér við land. Ég bað hv. þm. að koma hér upp og útskýra það fyrir mér hvers vegna hann taldi þörf á því að vera með tvöfalt stýrikerfi, hvort hann hefði ekki næga trú á því að aflamarkskerfið eitt og sér mundi duga til þess að stjórna fiskveiðum við Ísland. Því miður sá hv. þm. ekki ástæðu til að svara þeim fyrirspurnum sem fyrir hann voru lagðar en hann á möguleika á því að koma upp í öðru andsvari og útskýra þá fyrir okkur hvers vegna hann telur að aflamarkskerfið eitt og sér dugi ekki við stjórn fiskveiða.