Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:14:57 (2476)

1997-12-17 10:14:57# 122. lþ. 45.92 fundur 141#B rafmagnseftirlit# (umræður utan dagskrár), GE
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:14]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Það er vonandi að málin gangi þannig fyrir sig, eins og hæstv. ráðherra lýsti í lok ræðu sinnar, að ástandið batni frá því sem er. Þann 20 desember sl. stóð ég hér í stól og átti orðræðu við ráðherra og hafði miklar áhyggjur af þessu máli og þá var því heitið að þetta ástand mundi batna.

Ég hef fengið svar við spurningum sem ég lagði fram hér á þingi og ég vil þakka fyrir það. En það kemur ekki í veg fyrir það að ég hef enn stórar áhyggjur af þessu máli því ég held að gamalveitur séu í miklum mæli óskoðaðar, ekki bara í Reykjavík heldur um allt land og það verður að breyta einhverju frá því sem nú er ef það á að komast í það lag sem þarf. Ef það er rétt að það sé 10% úrtaksskoðun á þeim nýveitum sem eru settar þá getur verið að það dugi með því að rafverktakar komi sér upp öryggisstjórnunarkerfi og með því að rafverktakar setji sér nýjar öryggreglur. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi hugmynd um hversu margar gamalveitur hafi verið skoðaðar á sl. ári í Reykjavík og í öðru lagi úti á landi.

Ég spyr hvort hæstv. ráðherra sé kunnugt um hver kostnaðarhlutdeild almennings verður í ár eða á næsta ári miðað við liðin ár. Ég lýsti einmitt mestum áhyggjum yfir að gamalveitur yrðu ekki skoðaðar eins og var. Það var nánast farið í hvert einasta hús á öllu landinu. (Forseti hringir.) En ef á að vera aðeins 10% úrtaksskoðun þá er ég hræddur um að það verði tjón, meira og minna tjón, vegna þess að skoðun hefur ekki farið fram.