Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:25:33 (2480)

1997-12-17 10:25:33# 122. lþ. 45.92 fundur 141#B rafmagnseftirlit# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:25]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspurnina og málshefjanda fyrir að taka þetta mál hér upp og þakka fyrir ágæta þátttöku í þessum umræðum.

Vitaskuld eru allar slíkar ábendingar vel þegnar og þær eru til þess að menn gái betur að og ég veit að Löggildingarstofan hlustar hér grannt og mun þá um leið kanna þær fullyrðingar sem hér er haldið á lofti.

En ég skil ekki hv. þm. þegar hann segir að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum með svör mín við spurningum sínum. Hv. þm. spurði hvort ég vissi hvernig ástand rafmagnsöryggismála væri fyrir komið. Svarið við því var já. Og í framhaldi af því rökstuddi ég það að ég teldi því vera vel fyrir komið.

Það komu hins vegar tvær spurningar fram í umræðunni (Gripið fram í.) og það voru spurningar frá hv. þm. Gísla S. Einarssyni þar sem hann spurði annars vegar um eftirlit með gömlum veitum og svo með nýjum veitum. Ég tek undir það að eftirlitið með gömlu veitunum er visst áhyggjuefni en það er betra nú en það var áður. Dæmi: Árið 1989 voru skoðaðar í Reykjavík 697 gamlar veitur. Árið 1990 --- ótvírætt áður en þetta fyrirkomulag sem nú er var tekið upp --- voru skoðaðar 794. Árið 1996 voru skoðaðar í Reykjavík 759 og árið 1997 er búið að skoða 800. Með öðrum orðum: Eftirlitið er betra en það var áður. Tölurnar segja það og fullyrðingar um annað eru rangar.

Varðandi nýju veiturnar þá hafa verið skoðaðar á bilinu 2.000--2.500 og allt upp í 3.000 veitur á þessum tíma á ári hverju. Þetta er nákvæmlega það sem menn eru að gera í dag. Menn eru að skoða þennan fjölda. Það verður eitthvað talsvert færra árið 1997 en var mjög nálægt þessum fjölda árið 1996. Aðalatriðið er þetta: Löggildingarstofan hefur starfað í eitt ár. Hún er að fóta sig í nýju umhverfi. Hún hefur náð mjög (Forseti hringir.) góðum (ÖJ: Nei.) árangri og er að tryggja betra eftitlit, meira öryggi og betri þjónustu fyrir neytendur en áður var. (ÖJ: Þetta er rangt.)