Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:39:45 (2485)

1997-12-17 10:39:45# 122. lþ. 45.1 fundur 282. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni fyrir að leggja þessa fyrirspurn fram og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar að til að taka hér undir orð fyrri tveggja hv. ræðumanna.

Auðvitað verður hugur að fylgja máli þegar jafnréttismálin eru rædd. Ég vil nefna eitt dæmi sem er einmitt til umfjöllunar nú í þinginu. Það er fæðingarorlofslöggjöf sem á að fara að samþykkja hér. Þar er slík mismunun kynjanna og frekari mismunun á ferðinni að það er með eindæmum og mun þetta mál koma til umræðu fyrir jólafrí. Ég tel að menn verði að láta hug fylgja máli þegar lagasetning er á annað borð til umfjöllunar og sjá til þess að ekki sé verið að mismuna kynjunum eins hrapallega og gerist með frv. um fæðingarorlof sem hér er til umfjöllunar og verður líklega að lögum fyrir áramót Þar er verulega verið að mismuna körlum (Forseti hringir.) og konum og fólki eftir vinnustað sem bitnar auðvitað á börnum þessa lands.