Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:43:31 (2487)

1997-12-17 10:43:31# 122. lþ. 45.1 fundur 282. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:43]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil leggja áherslu á það að ég lít ekki svo á að jafnréttismál séu eitthvert sérstakt málefni kvenna, alls ekki. Á mörgum sviðum þarf að rétta hlut kvenna. En það þarf líka að rétta hlut karla á ýmsum sviðum. Ég held að við eigum að ganga að þessu, bæði kynin, ekki sem einhverjir sem séu að keppa eða í togstreitu heldur að vinna að sameiginlegu verkefni, laga til fyrir karla þar sem þeirra hlutur er fyrir borð borinn og laga til fyrir konur þar sem þeirra hlutur er fyrir borð borinn.

Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir taldi að það skorti pólitískan vilja til að vinna að þessu. Ég get ekki viðurkennt að mig skorti pólitískan vilja a.m.k. og ég held ekki minn flokkur. Ég vænti þess að þingheimur sýni pólitískan vilja. Hitt er annað mál að kannski eru áherslurnar eitthvað misjafnar, aðferðafræðin eitthvað misjöfn. Ég t.d. geri ráð fyrir því, þó að við hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir höfum mikinn pólitískan vilja til jafnréttismála, að þá yrðum við ekki sammála um alla hluti þess hvernig ætti að efla jafnrétti.

Ég vil andmæla því að Jafnréttisráð starfi illa eða skrifstofa jafnréttismála. Það er hægt að hugsa sér að báðir þessir aðilar starfi einhvern veginn öðruvísi. Ég hef t.d. sjálfur stundum verið að hugsa um hvort ekki væri ástæða til að skrifstofa jafnréttismála einbeitti sér meira að innanlandsmálefnum fremur en erlendum samskiptum sem eru talsvert ríkur þáttur í starfsemi skrifstofu jafnréttismála. Svona atriði get ég talað um. En ég vil alls ekki (Forseti hringir.) meina --- herra forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu --- að skrifstofa jafnréttismála starfi illa.