Fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:46:17 (2488)

1997-12-17 10:46:17# 122. lþ. 45.2 fundur 317. mál: #A fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:46]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Við jafnaðarmenn höfum gert nokkrar atrennur að því að Alþingi fullgildi alþjóðasamþykkt nr. 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Sá málflutningur okkar hefur reyndar borið nokkurn árangur þó samþykktin sé ekki komin hingað inn til fullgildingar.

Þessi samþykkt tekur til vinnandi karla og kvenna sem hafa skyldum að gegna gagnvart eigin börnum og framfæri þeirra þegar slíkar skyldur skerða möguleika þeirra til undirbúnings þátttöku eða frama í atvinnulífinu. Samþykktin tekur til allra greina atvinnulífsins og allra flokka starfsmanna. Það sjónarmið liggur til grundvallar að koma á í raun jöfnum möguleikum og jafnrétti til handa vinnandi körlum og konum og skal sérhvert aðildarríki setja það markmið í stjórnarstefnu að auðvelda fólki með fjölskylduábyrgð að framfylgja þeim rétti sínum.

Verkalýðshreyfingin hefur sótt mjög á um þessa fullgildingu en ekki hefur náðst samstaða um það mál í samráðsnefnd félmrn. Sú grein samþykktarinnar sem helst hefur valdið ágreiningi er 8. gr. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Fjölskylduábyrgð sem slík skal ekki verða gild ástæða til uppsagnar starfs.`` Og skyldi maður nú halda að í landi eins og okkar væri auðvelt að fá samstöðu um að slíkt réði ekki úrslitum hvort starfsmaður heldur starfi sínu. Þetta er mjög mikilvægt ákvæði að fjölskylduábyrgð skuli ekki vera ástæða til uppsagnar starfs og felst ákveðið starfsöryggi fyrir fjölskyldufólk í ákvæðinu, ekki síst þegar verr árar á atvinnumarkaði.

Eins og fram hefur komið er ágreiningur milli launþegasamtakanna og Vinnuveitendasambandsins um að fullgilda þessa samþykkt þar sem Vinnuveitendasambandið telur að fullgildingin sé óþörf. Hægt er að setja ný lög varðandi þessi ákvæði og lög sem almennt tækju til uppsagnar starfsmanna og líka er unnt að setja ákvæðið inn í lög um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla. Jafnframt er auðvitað hægt að koma þessu ákvæði inn í samninga, en ekki líklegt miðað við afstöðu VSÍ.

Þegar frv. um opinbera fjölskyldustefnu var lagt fram á Alþingi fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári var þar ákvæði um að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að skapa skilyrði til að Ísland gæti fullgilt þessa samþykkt. Í meðförum félmn. var því ákvæði breytt og þar lagt til að í stað þess að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að sköpuð verði skilyrði til þess að Ísland geti fullgilt samþykktina, þá skuli slík skilyrði sköpuð og því er spurt: Hvað líður þeirri framkvæmd að skapa þessu skilyrði?