Fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:49:33 (2489)

1997-12-17 10:49:33# 122. lþ. 45.2 fundur 317. mál: #A fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:49]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og réttilega var greint hjá fyrirspyrjanda er þetta atriði stefnumörkun í ályktun Alþingis um mótun opinberrar fjölskyldustefnu. Eins og ég hef margoft tekið fram er það mín ætlan að koma þessari fullgildingu á. Ég er ekki að nefna dagsetningar en ég tel að þarna sé um réttmæta og eðlilega samþykkt hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni að ræða og þess vegna eigum við að gerast aðilar að henni. Ég tel að það væri fjölskyldunum í landinu til framdráttar ef þetta yrði gert.

Mér gefst ekki tími til að rekja efni þessa máls en meginatriðið er það að aðildarríkin skuldbinda sig til að tryggja að fjölskylduábyrgð sem slík skuli ein ekki geta verið gild ástæða uppsagnar.

Ég hef farið þá leið og tel að hún sé farsæl um ágreiningsatriði eins og þau að reyna fyrst hvort viðkomandi aðilar, í þessu tilfelli aðilar vinnumarkaðarins, geti ekki samið um það sín á milli að nauðsynlegt sé að taka þetta upp og þær umræður hafa verið í gangi. Ég held að fullgildingin í sjálfu sér breyti ekki miklu í þjóðfélaginu og það verði ekki nein byrði fyrir hvorugan aðilann og fengur fyrir alla að fullgilda þessa samþykkt. Svar mitt er því það að ég mun beita mér fyrir fullgildingu samþykktarinnar.