Fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:53:33 (2491)

1997-12-17 10:53:33# 122. lþ. 45.2 fundur 317. mál: #A fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:53]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Sá tími er liðinn að hæstv. ráðherra geti haldið áfram að segja: Ég mun beita mér fyrir og ég mun beita mér fyrir. Það er búið að koma með tillögu í þingið um að Alþingi fullgildi þessa samþykkt. Það liggur fyrir að eina ágreiningsatriðið í allri samþykktinni er 8. gr. og hún er svona einföld að fjölskylduábyrgð sé ekki ástæða uppsagnar og ráðherrann segir að það muni ekki miklu breyta að fullgildingin verði. Jú, það mun miklu breyta vegna þess að í þeim efnum er þjóðfélagið eins og barbarismi. Það getur hver stjórnandi fyrirtækis sem er kallað fyrir sig starfsmann og sagt við hann: Þér er hér með sagt upp störfum og þegar spurt er: Hvers vegna, þá þarf ekki að koma með neitt svar. Það þarf ekki að gefa svar. Og það er hvergi neitt haldreipi. Ef verið er að segja viðkomandi upp störfum vegna þess að hann er með lítið barn, vegna þess að barnið á við langtímaveikindi að stríða eða annað sem kemur upp á í fjölskyldunni og skapar erfiðleika fyrir starfsmann á vinnumarkaði. Þess vegna er allt tal um stefnumörkun undansláttur. Ráðherra segir að réttmætt sé að við fullgildum þessa samþykkt og við eigum að gerast aðilar. Það er margreynt. VSÍ vill ekki ganga til samninga og þess vegna er þetta spurning um að Alþingi fái að taka ákvörðun um að fullgilda samþykktina. Þegar það hefur verið gert, þá stendur ákvörðunin eftir að setja ákvæði í lög eða gefa aðilum vinnumarkaðarins tækifæri til að semja sín í milli. Svona einfalt er það. Allt tal um stefnumörkun héðan í frá er undansláttur.