Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:58:12 (2493)

1997-12-17 10:58:12# 122. lþ. 45.3 fundur 335. mál: #A atvinnuleysistryggingar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RA
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:58]

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í 24. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem giltu fram á mitt þetta ár var við það miðað að hámarksbætur yrðu greiddar þeim sem unnið hefðu 1.700 dagvinnustundir á seinustu 12 mánuðum eða sem svarar til 42 vikna. Tekið var tillit til þess að fæstir ná 52 vikum vegna sumarleyfa og veikinda og lausráðnir starfsmenn missa úr þegar þeir skipta um vinnu og eins vill það gerast um jól og páska. Þess vegna var miðað við 1.700 stundir eða 42 vikur og þannig hefur þetta verið í einn og hálfan áratug.

Í nýjum lögum um atvinnuleysistryggingar sem tóku gildi 1. júlí 1997 er fjallað um hámarksbætur í 8. gr. Þar er orðalag annað og miklu óljósara en áður og segir, með leyfi forseta:

,,Hámarksbætur greiðast þeim sem hafa verið í fullu starfi síðustu 12 mánuði.``

Í greinargerð frv. var þess hvergi getið að í þessu fælist nein efnisbreyting. Eins var þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frv. Hann nefndi aldrei í mörgum ræðum sínum að með nýju frv. fælist nokkur skerðing að þessu leyti. Samtök utan þings sem veittu umsögn um frv. gerðu heldur enga athugasemd við þetta ákvæði í trausti þess að í því fælist ekki nein efnisbreyting frá áratuga langri hefð úr því að þess var ekki getið í athugasemdum frv. eða í ræðum hæstv. ráðherra. En þegar hæstv. ráðherra gaf út reglugerðina á grundvelli laga ásamt dagpeningaskrá nr. 45 1. júlí sl. kom í ljós að hámarksbætur voru miðaðar við að bótaþegi hefði verið í vinnu í 2.080 stundir á seinustu 12 mánuðum eða í 52 vikur. Þeir sem ekki náðu 2.080 stundum fengu skertar bætur hlutfallslega og því fékk sá sem hafði unnið 1.700 stundir um 82% af fullum launum og aðrir samsvarandi. Þessari ákvörðun ráðherrans var þá þegar mótmælt af ýmsum samtökum launamanna. Talsmenn ráðuneytisins upplýstu þá að fyrri reglugerð yrði endurskoðuð og nokkru síðar var gefin út ný dagpeningaskrá nr. 46. Í þeirri skrá er ekki lengur minnst á dagvinnustundir og því engin leið að skilja við hvað miðað er en mér er tjáð að nýja skráin hafi litlu breytt.

Því spyr ég: Var hæstv. ráðherra ljóst þegar hann lagði frv. fram að það fæli í sér verulega skerðingu fyrir þá sem ekki hafa verið í fullu starfi síðustu 12 mánuði? Ef ráðherra var þetta ljóst, hvers vegna var þess þá ekki getið í athugasemdum við frv. eða í framsöguræðu ráðherra? Síðan er spurt að því hvort ekki muni leiðrétting fást og hvort ráðherra hyggist ekki beita sér fyrir breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar þannig að ekki verði um að ræða skerðingu bóta af þessari ástæðu.