Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:01:24 (2494)

1997-12-17 11:01:24# 122. lþ. 45.3 fundur 335. mál: #A atvinnuleysistryggingar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:01]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég get ekki fallist á að neitt hafi verið falið í þessu efni í umræðum hér eða í þingskjölum. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um segir í 8. gr. gildandi laga, þ.e. nýju laganna, um atvinnuleysistryggingar, í 1. mgr.:

,,Hámarksbætur greiðast þeim sem hafa verið í fullu starfi síðustu tólf mánuði. Sé því skilyrði ekki fullnægt lækkar bótafjárhæð í hlutfalli við starfstímabil og starfshlutfall á síðustu tólf mánuðum þar til lágmarksbótarétti er náð, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 7. gr. Bótahlutfall getur þó aldrei orðið hærra en sem nemur því starfshlutfalli sem maður er reiðubúinn að ráða sig í.``

Í athugasemdum við einstakar greinar frv. segir m.a. um 8. gr.:

,,Hliðstæð ákvæði er að finna í 24. gr. og 24. gr. a í gildandi lögum. Í samræmi við 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins er lagt til að við ákvörðun bótafjárhæðar sé miðað við starfstímabil og starfshlutfall á síðustu tólf mánuðum. Lagt er til að hámarksbætur greiðist þeim sem hafa verið í fullu starfi síðustu tólf mánuði, en skv. 1. mgr. 24. gr. gildandi laga greiðast hámarksbætur þeim sem unnið hafa 1.700 stundir eða fleiri á síðustu tólf mánuðum.``

Þarna var sem sagt ekkert verið að fela, enda engin ástæða til að gera það.

Mismunurinn er sá að í öðru tilfellinu er miðað við ákveðinn vinnustundafjölda, í hinu er miðað við ákveðið starfshlutfall. Það voru ýmsar þversagnir í þessu eftir fyrra fyrirkomulagi, t.d. þær að sá sem vann í 50% starfshlutfall í 12 mánuði átti 61% bótarétt ef hann varð atvinnulaus. Sem dæmi má nefna að framkvæmdin var sú að ef sá sem var atvinnulaus og fékk greiddar atvinnuleysisbætur fékk allt í einu 50% starf þar sem starfshlutfallið var lægra en bótarétturinn þá hélt hann 11% bótum og ávann sér þær fyrir að hafa verið atvinnulaus um tíma. Nú er þetta afnumið og einstaklingur fær greiddar jafnháar bætur og starfshlutfallið var. Sá sem var í 50% starfi fær 50% bætur.

Það er rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að mistök urðu við gerð dagpeningaskrár þegar hún var send út. Þar var orðalag sem hægt var að misskilja. Ég gaf strax yfirlýsingu um það að þessi misskilningur yrði leiðréttur og mér þykir mjög slæmt ef svo hefur tekist til að enn sé hægt að misskilja. Þessi dagpeningaskrá var afturkölluð og ný send út. Ég hélt að þessi misskilningur hefði verið rækilega leiðréttur en ég er tilbúinn að líta á það ef þarna er eitthvað óskýrt.

Meginatriðið er það að sá sem var í 100% starfi, þ.e. fullu starfi og þá er ég ekki að tala um klukkutíma eða daga heldur það sem metið er fullt starf í viðkomandi starfsgrein, fái fullar bætur. Sá sem er í hálfu starfi fái hálfar bætur. Þetta er kjarni málsins og meining laganna.

Það hefur komið í ljós við framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar að það eru ákvæði sem mér finnast getað virkað ósanngjörn, t.d. um skerðingarhlutfall bóta og enn fremur um hlutabætur. Ég hef komið því til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að ef stjórnin verður sammála um að óska eftir breytingum á lögunum, þá er ég tilbúinn að beita mér fyrir þeim. Það er óeðlilegt að ekknabætur, svo að ég taki eitt dæmi, verði til skerðingar á atvinnuleysisbótum. En hins vegar getur sjómannskona sem á lifandi mann, skipstjóra kannski á háum tekjum, notið fullra bóta. Þetta finnst mér vera ósanngjarnt og ég er tilbúinn til að beita mér fyrir leiðréttingu á því, enda verði sæmileg sátt um það.