Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:09:35 (2497)

1997-12-17 11:09:35# 122. lþ. 45.3 fundur 335. mál: #A atvinnuleysistryggingar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:09]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi umræða sannar það sem þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu á sínum tíma um þetta frv., sem síðar varð að lögum, að það er meingallað. Það er svo gallað að hæstv. ráðherra skildi það ekki í fyrsta umgangi og vinnubrögðin í ráðuneytinu eru slík að þegar hann hefur lýst því yfir að hann vilji reyna að leiðrétta málið og gerir tilraunina, þá getur hann ekki komið henni í framkvæmd. Þannig eru vinnubrögðin í ráðuneytinu. Það sem skiptir þó mestu máli í þessu er það, að ráðherrann hefur lýst því yfir að hann hafi vilja til að bæta þessum hópi sinn rétt. Hann hefur lýst því skýrt yfir í þessari umræðu en síðan segir hann: Ég er tilbúinn til að líta á það. Annaðhvort var þessi réttur skertur og ráðherrann vill bæta hann eða hann vill það ekki. Það þýðir ekkert að koma hingað og segja að hann sé tilbúinn til að líta á málið. Hann hefur fallist á að ákveðinn hópur hafi orðið fyrir ákveðinni skerðingu vegna þessa máls og ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hann ekki reiðubúinn að lýsa því yfir að hann breyti reglugerðinni þannig að allur vafi verði tekinn af þessu máli?