Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:10:42 (2498)

1997-12-17 11:10:42# 122. lþ. 45.3 fundur 335. mál: #A atvinnuleysistryggingar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:10]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það hefur vakið sérstaka athygli mína hvernig hæstv. félmrh. talar til eða um atvinnuleysingja í landinu, hversu köldu andar til atvinnuleysingja. Mér finnst ævinlega liggja í þeim orðum sem hann hefur um þann hóp manna að þarna sé fólk sem ekki vill vinna þá vinnu sem það fær. Ég verð að segja hæstv. félmrh. það einu sinni enn að ég þekki marga sem hafa mátt sæta þessu hlutskipti og það hefur vissulega verið fólk sem hefur reynt að fá vinnu og verið tilbúið til að taka nánast hverju sem er en það fær ekki vinnu. Og mér finnst mjög illa gert af hæstv. ríkisstjórn bæði að taka atvinnuleysisbætur úr tengslum við laun og setja svo dulbúið ákvæði inn í frv. í fyrra, sem var nógu slæmt fyrir, um breytingu á vinnustundafjölda þannig að núna fá (Forseti hringir.) nánast engir atvinnuleysingjar fullar bætur.