Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:12:14 (2499)

1997-12-17 11:12:14# 122. lþ. 45.3 fundur 335. mál: #A atvinnuleysistryggingar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:12]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt í þessari umræðu að fá upplýsingar um það hvort þeim atvinnuleysingjum hefur fjölgað sem ekki fá fullar bætur vegna breytinga á viðmiðun við réttinn eða vinnustundafjöldann. Ég bendi á að mjög margir sem missa vinnuna fara ekki strax á atvinnuleysisbætur meðan þeir eru að leita sér að vinnu. Það að vera án bóta, skerðir réttinn til fullra atvinnuleysisbóta þegar þeir síðan neyðast til að fara á bætur. Ég tel að svar þurfi að koma við því frá hæstv. ráðherra og bendi honum á að verið er að senda þarna stóran hóp fólks sem er atvinnulaust til sveitarfélaganna á félagsmálastofnanir. Var það ætlunin hjá hæstv. ráðherra þegar þessum lögum og reglugerðum var breytt? Ég tel mjög mikilvægt, herra forseti, að svör komi við þeim spurningum í þessari umræðu.