Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:15:35 (2501)

1997-12-17 11:15:35# 122. lþ. 45.3 fundur 335. mál: #A atvinnuleysistryggingar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:15]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ef hv. þm. hefði nennt að leggja það á sig að lesa skýringarnar við 8. gr. í frv. í fyrra, þá hefði hann getað séð hvernig í málinu lá og það var ekki verið að fela neitt. Meginatriðið í þessu er það að full vinna í viðkomandi starfsgrein, það sem telst full vinna hvað sem hún er unnin á mörgum klukkutímum, á að gefa fullar bætur. Það er mergurinn málsins. 50% starfshlutfall á að gefa 50% bætur. Ég hef ekki dulið nokkurn mann neins í þessu efni. Þessi dagpeningaskrá fór óljóst orðuð frá Vinnumálastofnun og var misskilin og var ekki í fullu samræmi við lögin en hún var leiðrétt. Ég vænti þess að ekkert fari þarna á milli mála, en eins og ég sagði áðan, þá er ég tilbúinn að láta fara yfir það hvort það er nokkuð lifandi leið að misskilja eitthvað í þessu og hvort þarna er ekki farið fullkomlega eftir lögunum því að lögunum ber að framfylgja.

Ég mun ekki breyta lögunum til fyrra horfs eða beita mér fyrir því vegna þess að ég tel að réttmætt sé og eðlilegt að bæturnar miðist við starfshlutfall og þeir sem vinna fulla vinnu fái fullar bætur.

Ég vil biðja hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur að vera ekki að gera mér upp skoðanir á atvinnulausu fólki. Sem betur fer hefur því stórfækkað þann tíma sem ég hef verið í ráðuneytinu. Ég hef viljað að Íslendingar sætu fyrir þeirri vinnu sem losnar, en nú erum við á kafi í því og verðum í hverri viku að afgreiða marga, marga tugi atvinnuleyfa (Forseti hringir.) fyrir útlendinga til þess að geta haldið þjóðfélaginu gangandi. (Forseti hringir.) Bótaþegunum hefur fækkað verulega frá því sem var áður og 20% þeirra sem eru inni í atvinnuleysistölunum eru á hlutabótum.