Dánarbætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:21:52 (2503)

1997-12-17 11:21:52# 122. lþ. 45.4 fundur 351. mál: #A dánarbætur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:21]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Svar við spurningum hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur er það að lagaheimild fyrir dánarbótum er að finna í 6. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 118/1993. Lagagreinin er í tveimur málsgreinum og er aðalreglan kynnt í hinni fyrri en þar er veitt heimild til að greiða hverjum þeim sem á lögheimili hér á landi og verður ekkja eða ekkill innan 67 ára aldurs bætur í 6 mánuði eftir lát maka.

Í öðru lagi eru í seinni málsgrein tekin sérstök tilvik og segir þar að ef hlutaðeigandi er með barn yngra en 18 ára á framfæri eða við aðrar sérstakar aðstæður sé heimilt að greiða bætur a.m.k. 12 mánuði til viðbótar en þó aldrei lengri tíma en 48 mánuði. Hugsunin með greiðslu dánarbóta er að létta undir með framfærslubyrði eftirlifandi maka og kemur það því til álita þegar sérstakar aðstæður eru metnar við hvaða aðstæður greiðslubyrði er þyngri en ella. Tryggingaráði er falið að setja vinnureglur hér að lútandi og voru þær samþykktar samhljóða í tryggingaráði 22. nóv. 1996. Tryggingaráð hefur metið það svo að framfærslubyrði sé það þung þegar fleiri en eitt barn eru undir 18 ára aldri að full ástæða sé til að greiða hærri dánarbætur, en það er sama regla og um barnabætur almennt. Örorkulífeyrisþegar eiga hins vegar rétt á áframhaldandi tvöföldun barnalífeyris með hverju barni. Tryggingaráð getur þó metið sérstakar aðstæður.

Hv. þm. ber þessa fyrirspurn bæði munnlega og skriflega fram og ég get svarað hv. þm. við skriflega afgreiðslu mun nánar en ég hef tíma til hér í þessari munnlegu fyrirspurn.