Umferðarlög

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:28:06 (2507)

1997-12-17 11:28:06# 122. lþ. 45.5 fundur 337. mál: #A umferðarlög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi TIO
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:28]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Í 69. gr. umferðarlaga er ákvæði sem heimilar löggæslumönnum að taka skráningarmerki af bifreið hafi hún ekki verið færð til skoðunar. Árleg skoðunarskylda er á öllum bifreiðum með þeirri undantekningu að nýja bíla þarf ekki að skoða fyrstu þrjú árin. Skoðun er þannig háttað að auglýst er hvenær mæta skal með bifreið til skoðunar og fer það eftir númeri hvenær ársins skoðun á að fara fram. Þeir sem ekki koma til skoðunar með bifreið sína á tilsettum tíma hljóta sekt, 5.000 kr., en geta átt það á hættu að löggæslumenn nýti sér fyrrnefnda lagaheimild og taki skráningarmerki af bifreiðinni. Gerist það stundum við skyndikannanir lögreglu í umferðinni en í sumum umdæmum gerir lögreglan að nóttu til leit að bifreiðum sem ekki hafa verið færðar til skoðunar og fjarlægir af þeim skráningarmerki. Ekki virðist vera nein regla á því hvort bifreiðaeigendum er gefinn kostur á því að færa bifreið sína til skoðunar áður en merkið er fjarlægt eða ekki. Í sumum löggæsluumdæmum tíðkast það að lögreglumenn láti þá vita sem hafa látið undir höfuð leggjast að færa bílinn sinn til skoðunar, að til standi að fjarlægja merkin ef þeir bæti ekki ráð sitt. Annars staðar virðist kappkostað að láta ekki vita af yfirvofandi aðgerðum. Ekki er gerður greinarmunur á því hvort bifreiðin er í fullkomnu öruggu ástandi eða hvort hún skapar hættu í umferðinni vegna lélegs búnaðar.

Eftir að heimilað var að nýir bílar þyrftu ekki skoðunar við fyrstu þrjú árin er eitthvað um að almennar upplýsingar um það hvenær skoðun á að fara fram fari fram hjá eigendum nýrra bíla. Hljóta þeir þá sekt sem ekki er gert að aðfinnsluefni hér. Hins vegar geta þeir orðið fyrir því í ofanálag að missa afnot af bílum sínum vegna þess að skráningarmerki er fjarlægt ef þeir eru svo óheppnir að búa þar sem löggæslumenn iðka það að fjarlægja skráningarmerki fyrirvaralaust. Verður þetta að teljast nokkuð harkaleg aðgerð og ólíklegt að ekkert síður mætti ná árangri með vægari aðgerðum eins og þeirri að senda viðkomandi aðila tilkynningu við innheimtu sektar um að hann eigi á hættu að missa skráningarmerki bílsins ef hann sinnir ekki skoðanaskyldu. Meðalhófsregla stjórnsýslulaga, 12. gr., kveður á um að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Vegna þess sem áður er sagt um mismunandi framkvæmd eftir umdæmum ber að skoða 11. gr. sömu laga, svokallaðrar jafnræðisreglu en þar segir að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Margt virðist benda til þess að hvorugs þessara lagaákvæða sé gætt við framkvæmd umrædds heimildarákvæðis umferðarlaga og ber ég því fram svofelldar spurningar til hæstv. dómsmrh.:

Í fyrsta lagi. Telur ráðherra að fylgt sé meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þegar löggæslumenn taka skráningarmerki af bifreiðum sem ekki hafa verið færðar til skoðunar, auk þess sem eigendum þeirra er gert að greiða 5.000 kr. sekt?

Í öðru lagi. Telur ráðherra tryggt að jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sé gætt í hvívetna við löggæsluaðgerðir af þessu tagi í öllum löggæsluumdæmum landsins?

Í þriðja lagi. Mun ráðherra beita sér fyrir því að heimild í umferðarlögum til að fjarlægja skráningarmerki af bifreiðum verði framkvæmd með fullu tilliti til meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga?