Athugasemd í umræðu um fyrirspurn

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:37:25 (2512)

1997-12-17 11:37:25# 122. lþ. 45.93 fundur 145#B athugasemd í umræðu um fyrirspurn# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:37]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í þingsköpum er ákvæði sem heimilar formönnum þingflokka að semja um tilhögun umræðna. Það er mjög oft gert. Það var t.d. gert í gærmorgun í umræðunni um Kyoto svo ég nefni dæmi. Það er hægt að komast upp með slíka samninga ef enginn mótmælir þeim í salnum. Ef einhver hefði í gærmorgun í umræðunni um Kyoto t.d. sagt sem svo: Þetta gengur ekki, þá hefði forsetadæmið orðið að beygja sig undir það og hefja samninga á ný við viðkomandi.

Eins er það með þá vinnureglu sem vitnað var til og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi. Hún heldur því aðeins að allir í salnum uni henni. Ef einhver í salnum óskar eftir að víkja frá reglunni verður forseti að fara eftir því af því að sá sem er í salnum hefur þingsköpin með sér í málinu. Þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að það sé alveg skýrt að ekki er hægt að setja svona reglur án þess að þær séu í þingsköpum nema um þær sé alger sátt í salnum á hverjum tíma. Þess vegna er ég ekki sammála forseta um að skynsamlegt sé að setja þessa hluti þannig upp að úr því að þetta er orðin vinnuregla, þá eigi kannski að stefna að því að setja hana endilega í lög. Ég er ekki viss um að þetta sé góð vinnuregla. Gallinn við vinnuregluna er ekki sá sem hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni nefndi. Gallinn við vinnuregluna er sá að ráðherra hefur alltaf síðasta orðið í fyrirspurnatímum og það er algerlega óþolandi, stundum gersamlega ólíðandi og mjög oft misnotað. Ef það á að setja einhverja reglu í lög í þessum efnum, þá ætti það að vera að upphafsmaðurinn, fyrirspyrjandinn, hafi lokaorðið. Það væri í samræmi við góðar þingræðisvenjur, herra forseti, en ég þakka forsetanum að öðru leyti fyrir góðar skýringar á málinu.