Athugasemd í umræðu um fyrirspurn

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:41:34 (2515)

1997-12-17 11:41:34# 122. lþ. 45.93 fundur 145#B athugasemd í umræðu um fyrirspurn# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:41]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil með örfáum orðum blanda mér í umræðuna. Auðvitað er óheppilegt í fyrirspurnatíma eða utandagskrárumræðu ef á eftir lokaræðu eða lokasvari, t.d. ráðherra, er komið fram með nýja spurningalotu. Allir sjá að það gengur ekki upp. Hins vegar er mjög eðlilegt að þingmenn hafi síðasta orðið með athugasemdir eða koma einhverjum athugasemdum á framfæri út af umræðunni og oft hefur verið óþægilegt þegar ráðherra lýkur máli sínu í fyrirspurnatíma á þann veg að þingmaðurinn situr í raun eftir þannig að hann á eftir að svara fyrir sig eða koma athugasemd á framfæri.

Varðandi þingsköpin sem slík ætla ég að minna á að það hefur gerst í utandagskrárumræðu þegar hálftíma hefur ekki verið lokið í hálftíma umræðu og ráðherra hefur svarað þá hefur verið beðið um orðið hér og forseti gefið þingmanni orðið. Þetta hefur verið gagnrýnt en hann taldi að sér bæri að gera slíkt miðað við að annað kæmi ekki fram í þingsköpum. Auðvitað verðum við að skoða þetta og reyna að finna farsæla lausn en við erum oft að reka okkur á að það er mjög óþægilegt fyrir þingmanninn hvernig þingsköpin er sett upp.