Starfsumhverfi og framtíðarmöguleikar fiskvinnslunnar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:51:39 (2519)

1997-12-17 11:51:39# 122. lþ. 45.6 fundur 326. mál: #A starfsumhverfi og framtíðarmöguleikar fiskvinnslunnar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:51]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft mikilvægu máli. Hv. fyrirspyrjandi, Hjálmar Árnason, gat þess áðan að það hefði skipt sköpum varðandi þróun í fiskiðnaði að það þrengdi að varðandi veiðar. Ég held hins vegar að það sem hafi skipt mestum sköpum hafi verið stofnun Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði á sínum tíma vegna þess að þar kom saman þekking manna af gólfinu ef svo má segja og það sjálfstraust sem menntun og skóli gaf. Þar fengum við loksins menn sem kunnu að þróa vinnslu aflans og kunnu að selja fisk. Áður höfðum við aðallega notað lögfræðinga og viðskiptafræðinga í að selja fisk og það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það gafst einfaldlega ekki nógu vel. Þegar við fengum þessa menn af gólfinu með sjálfstraustið og þekkinguna fór loksins eitthvað að ganga. Í framhaldi af því þegar útflutningur á fiskafurðum var gefinn frjáls frá Íslandi varð sprening og það eru rétt um 10 ár síðan.