Lögbundin skólaganga barna og unglinga

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 12:00:06 (2523)

1997-12-17 12:00:06# 122. lþ. 45.7 fundur 322. mál: #A lögbundin skólaganga barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[12:00]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spyr þriggja spurninga:

Í fyrsta lagi: Hve mörg börn og unglingar, sem komið er í fóstur eða búa utan lögheimilissveitarfélags, njóta ekki lögbundinnar skólagöngu? Í öðru lagi: Er ráðherra kunnugt um að þess eru dæmi að tregða skólayfirvalda til að taka við þessum nemendum hefur valdið því að þeim eru ekki valin bestu fósturheimili sem völ er á?

Þess er til að svara að öll skólaskyld börn njóta lögboðinnar kennslu í almennum grunnskólum, í sérskólum og á sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum eða með heimakennslu eftir því hvað er talið henta nemandanum best. Menntmrn. er hins vegar kunnugt um eitt tilvik þar sem komið hafa upp erfiðleikar við að tryggja skólavist fyrir nemanda sem Félagsmálastofnun Reykjavíkur hefur komið til dvalar hjá fósturforeldrum utan Reykjavíkur.

Í þriðja lagi er spurt: Hvað hyggst ráðherra gera til að tryggja að öll börn fái notið lögbundinnar skólagöngu?

Þetta á þegar að vera tryggt með lögum um grunnskóla, reglugerðum og reglum sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Í 1. gr. laga nr. 66/1995, um grunnskóla, er kveðið á um að sveitarfélögum sé skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6--16 ára. Í 12. gr. laganna er skýrt sagt til um það að í hverju skólahverfi skuli vera skólanefnd og skal hún sjá til þess að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu.

Menntmrn. hefur ekki afskipti af vistunarmálum barna sem eru í umsjá barnaverndarnefnda eða félagsmálastofnana. Slík mál heyra undir félmrn. og barnaverndarnefndir sem starfa á vegum sveitarfélaga og þar sem öll ábyrgð á grunnskólahaldi er einnig á vegum sveitarfélaga er augljóst að náin samvinna verður að vera á milli barnaverndaryfirvalda og skólayfirvalda um vistun barna bæði innan og utan lögheimilis sveitarfélags.

Nokkur álitamál vegna tímabundins flutnings nemenda milli sveitarfélaga hafa komið til kasta ráðuneytisins eftir að grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna. Niðurstaða ráðuneytisins hefur ávallt verið sú, og er hún samræmi við grunnskólalög, að lögheimilissveitarfélag og skólanefnd þess sé ábyrg fyrir skólavist nemenda sinna. Flytjist nemendur á milli sveitarfélaga skuli fyrir fram semja um flutninginn og greiðslur í því sambandi. Eftir það beri viðtökusveitarfélagið sambærilega ábyrgð og lögheimilissveitarfélagið á meðan samningur gildir. Samband ísl. sveitarfélaga hefur gefið út viðmiðunarreglur um greiðslur á vinnubrögð í þessu sambandi.

Það eru engin refsiákvæði í grunnskólalögunum þannig að sinni sveitarfélög ekki þessu skyldum getur ráðuneytið ekki sótt þau til refsingar. Hins vegar getur ráðuneytið beitt sér í málum og reynt að stuðla að því að sveitarfélögin sinni þeim skyldum sem grunnskólalögin gera ráð fyrir og mæla fyrir um, þ.e. að sjá öllum nemendum fyrir skólavist. Þá hvílir skyldan á lögheimilissveitarfélaginu fyrst og fremst. Í því tilviki sem hv. þm. vakti sérstaklega máls á og er eina tilvikið sem menntmrn. er kunnugt um, hvílir lögheimilisskyldan á Reykjavíkurborg. Einnig er það svo að umræddur nemandi er, á þeim stað þar sem hann dvelst hjá fósturforeldrum, á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkur þannig að það er nauðsynlegt að hafa það í huga þegar menn ræða um þetta mál og skoða þær lagaforsendur sem liggja fyrir ákvörðunum varðandi nám í grunnskólum.

Ráðuneytið hefur fjallað um þetta mál og það hefur lagt sig fram um að viðunandi lausn fáist. Nú í dag verður -- það var boðað fyrir nokkrum dögum --- fundur í samráðsnefnd Sambands ísl. sveitarfélaga og samtaka kennara þar sem verður fjallað um þetta mál. Einnig mun forstöðumaður Barnaverndarstofu koma á fundinn og ég vænti þess að þar verði fjallað um það á þeim forsendum sem lög mæla fyrir um og í samræmi við þær skyldur sem hver og einn ber lögum samkvæmt.