Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 14:03:17 (2536)

1997-12-17 14:03:17# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[14:03]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við umræður um frv. um háskóla og frv. um kennaraháskóla urðu nokkur skoðanaskipti um ákveðin grundvallaratriði í þessum frv. sem æskilegt er að fara aðeins nánar yfir með hliðsjón af því að 2. umr. er lokið og frv. hefur verið breytt frá upphaflegri mynd jafnframt því sem brtt. stjórnarandstöðunnar hafa verið felldar. Þess vegna er nauðsynlegt, herra forseti, að glöggva sig á nokkrum atriðum í þessum frv. eins og þau standa núna við upphaf 3. umr. Auk þess var það þannig, herra forseti, að ég nefndi það úr ræðustól við 2. umr. að málin fengju meðferð í menntmn. á milli 2. og 3. umr. Ég ítreka þær óskir mínar að háskólasamningurinn sem var undirritaður í næstsíðustu viku, trúi ég það hafi verið frekar en þeirri síðustu, komi til meðferðar í hv. menntmn. eða verði að minnsta kosti kynntur þar áður en frv. sem hér er til meðferðar verður að lögum. Ég er með öðrum orðum að fara fram á að gert verði hlé á umræðunni einhvern tímann í dag þannig að menntmn. geti fjallað um einkaháskólasamninginn sem gerður var í síðustu viku.

Um frv. sem slíkt ætla ég að segja að ég tel að allur undirbúningur og aðdragandi að málinu hafi verið slæmur. Ekki var leitað samvinnu við háskólana. Það var ekki óskað eftir því að háskólarnir í landinu kæmu að því að undirbúa málið sameiginlega. Þetta var unnið með þessari venjulegu miðstýringu sem nú tíðkast í menntmrn. eftir að heldur losaraleg þróunarnefnd hafði verið með málin til meðferðar um nokkurt skeið.

Því er augljóst að frv. eins og það leit út í upphafi og enn frekar eins og það lítur út núna er afurð stjórnarflokkanna, þetta er ekki afurð háskólasamfélagsins á Íslandi. Hér er um að ræða flokkspólitískt háskólafrv. Það er býsna alvarlegt, herra forseti, þegar grundvallarlöggjöf um þetta skólastig eins og önnur er samin á pólitískum forsendum frekar en faglegum. Það er býsna alvarlegt að standa frammi fyrir þeim tíðindum í lok ársins 1997, svona seint á tuttugustu öldinni, að stjórnvöld sem fara nú með menntamál í landinu, Sjálfstfl. og Framsfl., skuli vilja standa þannig að málum í blóra við háskólasamfélagið í landinu, í fullri andstöðu við háskólasamfélagið í landinu hvert sem litið verður í þeim efnum.

Ég held að það sé umhugsunarefni hvert við erum komin með yfirstjórn menntamála á Íslandi ef talið er eðlilegt að vinna svona. Mér finnst líka dálítið umhugsunarvert fyrir okkur í stjórnarandstöðunni þegar staðan er þannig að það virðist ekki vera hægt að koma neinum vörnum við í þessari stofnun. Það tókst að vísu að fresta málinu í fyrravor. En að koma fram breytingum á þeim grundvallarágöllum sem eru á málinu hefur því miður ekki tekist. Auðvitað er það svo í sambandi við þetta mál og önnur að stjórnin og stjórnarliðið eru svo bólgin af velgengni síðustu mánaða að þau hafa ekki vanið sig á að hlusta á þjóðlífið fyrir utan né heldur á stjórnarandstöðuna né þá aðila sem um er að ræða. Stjórnarliðið er svo bólgið af hagvextinum, skoðanakönnununum, bólgið af meiri hlutanum á Alþingi að menn telja sig ekki þurfa að leggja eyrun við ym þjóðlífsins hvað þá heldur þeim röddum sem stjórnarandstaðan kann að láta í sér heyra í þessari stofnun. Þetta er býsna alvarlegt vandamál og snertir ekki bara þetta frv. hér. Það eru fleiri mál sem eru hér til meðferðar núna við lokin rétt fyrir jólin eins og þau mál sem snerta sérstaklega sjúkrahúsin sem eru að vísu ekki á dagskrá hér en þar kemur þetta ákaflega skýrt í ljós þar sem allir viðurkenna að vandinn er upp á hálfan til heilan milljarð en menn fást ekki til að tala um hlutina og ekki til að hlusta á það sem við erum að segja.

Í frv. til háskólalaga eins og það lítur út eftir að meiri hlutinn felldi okkar brtt. og samþykktir sínar eru fáein grundvallaratriði sem verður að ræða enn þá einu sinni núna við 3. umr. málsins. Ég ætla að nefna aðallega þrjú efnisatriði í frv. sem ég tel að þurfi umræðu við jafnframt því sem svo kann að fara að í ræðu minni óski ég eftir afstöðu og skýringum hæstv. menntmrh. á þeim. Fyrsta atriðið lýtur að 13. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að menntmrh. skipi allt að tvo fulltrúa til tveggja ára í senn í háskólaráð viðkomandi skóla. Talað er um að það eigi að setja takmörkunarákvæði í þessum efnum, ef til vill í einhver sérlög, en ekkert liggur fyrir um að menntmh. hafi þá grundvallarskoðun að þessir fulltrúar eigi t.d. að tengjast því sviði sem viðkomandi skóli starfar á. Ekkert hefur komið fram í máli hans t.d. um það að því er varðar Kennaraháskólann svo ég nefni dæmi eða Tækniskólann að þeir sem þar eigi að koma inn í háskólaráðin eigi að tengjast viðkomandi sviði. Það er bersýnilegt að það er algjör geðþótti hæstv. menntmrh. sem getur ráðið því hverjir veljast í háskólaráðin eins og þetta er orðað. Ef ekki verður stoppað í það gat í einhverjum sérlögum er alveg ljóst að vald ráðherra er óhæfilega mikið í þeim efnum.

Hæstv. menntmrh. rökstuddi þetta mjög frumlega seint í fyrrakvöld þegar við vorum að ræða þetta mál. Hann sagði að það væri eitt af brýnustu verkefnum íslenskra stjórnmála að verja vald stjórnmálamanna. Það væri hættulegt ef vald stjórnmálamann yrði skert. Það væri alveg stórhættulegt ef nokkrum manni dytti í hug að setja inn takmörkunarákvæði í þessa grein af því að það yrði að verja vald stjórnmálamanna. Ég hef satt að segja ekki talið að það væri sá hagsmunahópur sem þyrfti helst að hafa áhyggjur af nú rétt fyrir jólin eða þyrfti að ræða sérstaklega hér, þ.e. að verja vald stjórnmálamanna. Ég hef reyndar verið þeirrar skoðunar að þó stjórnmálamenn og þar með ráðherrar fái vald þá sé aðalatriðið að þeir kunni að fara með það og fara vel með það og að þeir kunni t.d. að deila því með öðrum þó þeir beri hina endanlegu ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð. Þegar kemur að hæstv. menntmrh. íslensku þjóðarinnar eins og það sæti er skipað í dag er það talið stórkostlega alvarlegt vandamál að nokkur skuli láta sér detta í hug að takmarka vald ráðherrans. Ég segi eins og er að ég tel að þessi setning í 13. gr. eins og hún lítur út núna sé algjörlega fráleit. Hvaða rök eru fyrir því að þræla þarna inn þessum mönnum frá ráðherranum? Út af fyrir sig er ég ekki að tala um að ráðherrann ætli eingöngu að spyrja um flokksskírteini í Sjálfstfl. en ég vona að mér fyrirgefist, herra forseti, þótt mér detti í hug að einhverjum detti það í hug að þannig sé að hlutunum staðið og þeir hugsaðir þannig. Það verður auðvitað nauðsynlegt að vera vel á verði ef þetta verður að lögum til að fylgjast með því hvernig ráðherrann fer með vald sitt þegar kemur t.d. að lögunum um Kennaraháskólann sem verða væntanlega samþykkt á þessum dögum sem eftir eru fram að hátíðum.

Ég held því að það sé óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. menntmrh. að því hér og nú hvernig hann hugsar sér að fara með valdið, á hvaða forsendum hann hyggst velja menn. Ég hefði talið langeðlilegast að það hefði verið þannig að t.d. háskólaráð viðkomandi skóla tilnefndi fjóra eða sex menn sem menntmrh. veldi síðan úr þessa fulltrúa ef menn eru á annað borð með þá hérna inni. En út af fyrir sig sé ég engin sérstök rök fyrir því að vera með þessa fulltrúa eins og hér er gert. Ég viðurkenni að vísu, herra forseti, að það kunna að vera viss rök fyrir þessu að því er varðar ákveðna skóla að skólarnir tengist þannig viðkomandi atvinnuumhverfi. En að því er varðar Háskóla Íslands snýr málið allt öðruvísi að mínu mati. Nauðsynlegt er að fá um það upplýsingar á hvaða forsendum á að velja þessa menn. Hvernig á að velja þessa menn? Á hvaða forsendum verður það gert? Hver er hugur menntmrh. í þeim efnum? Það er nauðsynlegt að fá um það upplýsingar við 3. og síðustu umræðu málsins. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir að þó þingið hafi mikið að gera þá sólarhringa sem eftir eru þá getum við ekki verið þekkt fyrir að henda frá okkur málum af þessu tagi án þess að vita hvað viss grundvallaratriði í frv. þýða. Við höfum einu sinni þá skyldu að vanda þá löggjöf sem fer héðan. Jafnvel þótt það sé mikill asi á mönnum að afgreiða fjárlögin hér á laugardaginn og komast í jólaleyfi eins og venja er til má það auðvitað ekki verða til að menn kasti höndunum til verkefnis af því tagi sem um er að ræða vegna þess að þetta mun lengi standa. Ég er alveg sannfærður um að ef þetta frv. verður samþykkt svona með atvinnulífsfulltrúaákvæðinu eins og það er kallað þá getur það haft mjög víðtæk áhrif fyrir háskólasamfélagið. Verið er að stíga fyrsta skrefið í þá átt að veikja sjálfstæði skólanna, rannsóknar- og þróunarsjálfstæði skólanna, akademískt sjálfstæði og frelsi. Atlaga að akademísku frelsi háskólanna í landinu er réttnefni á þessum hugmyndum.

Herra forseti. Í öðru lagi vil ég víkja sérstaklega að 14. gr. frv. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu viðkomandi háskólaráðs eftir nánari ákvæðum í sérlögum hvers skóla. Skal staðan auglýst til umsóknar.

Þann einan má skipa í stöðu rektors sem lokið hefur æðri prófgráðu við háskóla og öðlast hefur stjórnunarreynslu. Óheimilt er að framlengja skipunartíma rektors án auglýsingar.``

Ég tel að því miður hafi menntmrh. náð miklum árangri með því að koma þessari grein svona fyrir eins og hún lítur út þó hún hafi verið löguð dálítið. Ég tel að menntmrh. sé að ná miklum árangri. Ég trúi ekki að skólamenn í stjórnarflokkunum, Framsfl. og Sjálfstfl., samþykki ákvæðin með glöðu geði. Því trúi ég ekki vegna þess að verið er að svipta háskólana því frelsi sem Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn hafa haft um að velja sér leiðtoga sína. Það er alveg sama þó málið sé þannig að hér standi ,,menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu viðkomandi háskólaráðs eftir nánari ákvæðum í sérlögum hvers skóla`` er það algjörlega ljóst að skipunarvaldið er komið í hendur menntmrh., hin stjórnskipulega ábyrgð í þessu máli er komin í hendur menntmrh. Það eru ekki lítil tíðindi.

[14:15]

Ég geri ekki ráð fyrir að við myndum samþykkja frv. um það til dæmis að félagsmálaráðherra skipaði oddvita í sveitarfélögunum vegna þess að það væri sveitarfélögunum fyrir bestu að félagsmálaráðherra gerði það. Þannig hefur það verið með Háskóla Íslands að hann hefur verið frjáls stjórnunareining samkvæmt lögunum allt frá árinu 1911. Núna eru þvílíkir ofstjórnartilburðir uppi í menntmrn. og settir þannig fram að engu líkara er en menn telji þetta sjálfsagt í stórum stíl þótt allir sjái af samlíkingunni við sveitarfélögin hvað þetta er fjarstæðukenndur yfirgangur gagnvart háskólanum. Fjarstæðukenndur yfirgangur. Það virðast að vísu ekki vera nein takmörk fyrir því hvað mönnum dettur í hug þegar kemur að skólunum í seinni tíð en ég verð að segja alveg eins og er að ég tel þetta afar ljótt ákvæði eins og það lítur hér út. Ég óttast að bæði þetta ákvæði í 13. gr., sem ég var að tala um, og þetta ákvæði í 14. gr., sem ég er nú að tala um, verði til þess að vald færist frá skólasamfélaginu á Íslandi og í vaxandi mæli inn í menntmrn., meðal annars völd yfir einstökum mönnum. Hv. formaður menntmn. hefur skýrt ákvæði 14. gr. þannig að mjög mikilvægt sé fyrir rektorinn að vera sjálfstæður gagnvart starfsmönnum háskólans. Út af fyrir sig er það sjálfsagt alveg rétt en það er ekki aðalatriðið fyrir rektor háskóla að mínu mati. Aðalatriðið fyrir rektor háskóla er að hann sé ekki undir hælnum á stjórnvöldum, að hann sé sjálfstæður gagnvart stjórnvöldum, gagnvart menntmrh. og hafi styrk sinn frá starfsmönnum sínum, til dæmis í allsherjaratkvæðagreiðslu um stöðuna. Ég tel að sú uppsetning mála að búa þurfi til rektor sem er eins konar forstjóri utan frá, sem stjórnar liðinu og er sjálfstæður gagnvart því og hefur styrk sinn í ráðherranum sé röng.

Með þessu er verið að segja að ráðherrann sé kominn með sinn mann inn í háskólann. Hann sé búinn að senda flugumann inn í stjórnkerfi háskólans, æðsta manninn og stýri þar í krafti ráðherrans sem hafi þannig sjálfstæði og sterka stöðu andspænis starfsmönnum skólans. Þetta er sjónarmið sem getur gilt um ákveðið fyrirtæki. En þegar um er að ræða stofnun eins og háskólann þar sem það skiptir öllu, ekki bara fyrir háskólann, látum vera með háskólann, heldur fyrir þjóðina, að við eigum sterkan, sjálfstæðan háskóla, er auðvitað alveg ljóst að verið er að stofna þeirri stöðu í hættu og veikja möguleika háskólans á því að vera mótor í framþróun íslensku þjóðarinnar til betri og mannsæmandi lífskjara á komandi árum og áratugum. Það er verið að hægja á og veikja þann kraft sem getur verið í háskólanum, setja hann undir stjórnvöld, gera þennan gjörning að ráðherrann skrifi upp á ráðningu rektors, að mjög mikilvægum tíðindum vegna þess að þar með er verið að binda rektorinn við ráðuneytið, við menntmrh. Það er algerlega fráleit skipan að mínu mati og hörmung til að vita að staðan skuli vera þannig í þessari virðulegu stofnun, Alþingi Íslendinga, að menn skuli ekki fást til að opna augun fyrir því að hér eru kaflaskil í sögu Háskóla Íslands að eiga sér stað. Það virðist vera þannig að menn af ótrúlegu geðleysi, að ég segi ekki hugsanaleti, láti þetta yfir sig ganga. Ég held að menn hafi ekki velt þessu mikið fyrir sér því ég er sannfærður um að allir góðgjarnir og skynsamir skólamenn sjá undir eins hvað það er fráleit og stórhættuleg nálgun fyrir háskólasamfélagið sem um er að ræða.

Þriðja atriðið sem ég ætla að nefna, herra forseti, lýtur að 19. gr. þar sem segir með leyfi forseta: ,,Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers skóla skal setja reglur um hvernig hátta skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla. Í sérlög hvers ríkisháskóla skal setja reglur um öflun sértekna með gjaldtöku fyrir þjónustu er skólarnir bjóða.``

Við höfum haldið því fram í minni hluta menntamn. að einnig sé um að ræða ákveðin og skýr kaflaskipti þar sem verið sé að opna fyrir það að lögð verði á skólagjöld til að standa undir rekstri skólanna. Ég tel að þetta sé þannig séð atlaga að jafnrétti til náms í landinu og ég segi líka alveg eins og er að ég undrast það ástand sem er í þessari virðulegu stofnun að margir ágætir þingmenn skuli láta þetta yfir sig ganga. Í orði kveðnu vilja menn meina að ekki sé verið að samþykkja skólagjöld en í rauninni er það þannig að andi þessa texta gerir það að verkum að unnt er, því miður, fyrir óprúttin stjórnvöld að knýja fram að tekin verði skólagjöld á grundvelli þessa ákvæðis. Þar með er verið að gjörbreyta háskólasamfélaginu á Íslandi. Allt þetta er með þeim endemum, herra forseti, að náttúrlega væri eðlilegast að ræða þetta mál nánar og fresta því fram yfir hátíðar því að ekkert liggur á að afgreiða háskólalagafrv. vegna þess að hér eru þannig tíðindi á ferð að auðvitað ætti Alþingi að fá miklu lengri tíma til að fara yfir þetta. Ég óttast hins vegar að meiri hlutinn ætli sér að knýja málið fram. Hann felldi allar brtt. sem við vorum með og hefur ekki viljað hlýða á ábendingar okkar. Mér er ljóst að hv. formaður menntmn. hefur lagt sig fram um að reyna að ná um þetta mál skaplegri lendingu en niðurstaðan er engu að síður sú að frá pólitísku sjónarmiði og faglegu fyrir háskólana líka tel ég að frv. eins og það lítur út núna sé algerlega óviðunandi. Ákvæði 13. gr., ákvæði 14. gr., og ákvæði 19. gr. um skólagjöldin eru þannig að þetta er algerlega fráleit lagasetning eins og þetta lítur út. Menn hljóta að velta því fyrir sér mjög vandlega hvernig menn haga atkvæði sínu þegar kemur að því að bera upp málið í heild eins og það lítur út vegna þess að þarna er um það að ræða að verið er að leggja inn á braut sem er ólíðandi að fallast á. Ég taldi nauðsynlegt að koma þessum skilaboðum á framfæri við 3. umr. málsins, herra forseti, og mun síðar í umræðunni ef til vill bæta nokkrum við.

Í tilefni af umræðunni og stöðu hennar ítreka ég spurningar mínar til hæstv. menntmrh. Í fyrsta lagi um 13. gr. Á hvaða forsendum mundi hann velja menn í háskólaráðin sem þarna er um að ræða? Þarna er gert ráð fyrir að hann velji og þess vegna tel ég mjög mikilvægt að fá sjónarmið hans upp í þeim efnum. Ég tel að í öðru lagi sé nauðsynlegt að fá að heyra það nú við 3. og lokaumræðu málsins af hverju lagði hæstv. ráðherra svona mikla áherslu á að ráða uppáskrift á rektorinn í háskólunum. Hvað var það sem knúði það fram að meiri hlutinn er búinn að vera að basla með þetta mál síðan í fyrravetur fyrst og fremst til þess að koma því fram að ráðherrann fái þá stöðu að hann geti skrifað upp á rektor háskólans? Eftir hverju er ráðherrann að seilast? Er hann að verja vald stjórnmálamanna, eins og var innihaldið í ræðu hans um kvöldið eða hvað er það? Ég tel nauðsynlegt að Alþingi Íslendinga fái að heyra þetta frá ráðherranum og ekki síst þeir sem ætla að leggja á sig að styðja þessi ósköp án þess að hafa kannski haft allt of mikið fyrir að fara yfir málið.

Um þetta vil ég spyrja, herra forseti, um leið og ég lýk máli mínu að sinni um þetta háskólafrv. Ég endurtek óskir mínar um að haldinn verði fundur í menntmn. þar sem einkaháskólasamningurinn verði lagður fram til kynningar áður en málið verður afgreitt.