Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 14:30:29 (2540)

1997-12-17 14:30:29# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[14:30]

Svavar Gestsson (andsvar):

Það eru náttúrlega, herra forseti, afskaplega alvarlegir hlutir sem Alþingi stendur frammi fyrir í þessu máli. Búið er að gera ótal atrennur að hæstv. menntmrh. til að fá upplýsingar um það á hvaða faglegu forsendum hann mundi velja fulltrúana samkvæmt 13. gr. Oft er hefur verið knúið á um að hann geri grein fyrir því hvers vegna hann heimtar að fá að skrifa upp á rektor Háskóla Íslands. Hann fæst ekki til að svara þessum spurningum með öðru en því sem fram kom í umræðunni í fyrradag, að brýnt væri að verja vald stjórnmálamanna á Íslandi. Hann kvað stöðuna vera þá, eins og hv. formaður menntmn. sagði að í raun og veru þyrfti að halda þannig á spöðunum að rektorinn hefði sem sjálfstæðasta stöðu gagnvart starfsmönnum háskólans. Með öðrum orðum væri þarna verið að setja framlengingu á ráðherravaldið inn í háskólann. Í raun og veru væri ráðherrann að senda mann inn í stjórnkerfi háskólans.

Það er ótrúlegt að ráðherra skuli komast upp með að neita að svara spurningum af því tagi sem hér hafa verið bornar fram. Það bendir til þess að ástæða sé til að tortryggja það vald sem hæstv. ráðherra fær ef þetta frv. verður að lögum.