Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 14:57:21 (2543)

1997-12-17 14:57:21# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[14:57]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svörin. Ég minnist þess að hafa heyrt og lesið um þennan samanburð, könnunina á viðskiptagreinunum og er það hið besta mál og verður einnig forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr könnuninni á kennaramenntuninni. En þetta er ekki nema hluti af öllu dæminu. Þarna er verið að bera saman skóla innan lands. En hvað með samanburð við erlenda skóla? Það er spurning hvernig hann á að fara fram vegna þess að tekið er fram hérna og er auðvitað sá metnaður sem við eigum og verðum að hafa, að menntun okkar sé sambærileg við það sem gerist hjá öðrum þjóðum. Það er einmitt komið inn á það í 6. gr. Þar er getið um að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum o.s.frv. Í 4. og 5. gr. er vísað til þess að sú menntun sem hér er veitt sé sambærileg þeirri sem þar gerist. Hvernig sér hæstv. menntmrh. fyrir sér að þetta verði? Er hugsanlegt að kalla til erlenda aðila, eða eins og ég nefndi, er einhver slík samvinna í uppsiglingu?

Hæstv. forseti. Ég veit að hæstv. menntmrh. hefur verið mikill áhugamaður um tölvur og þá þróun en það sem ég var að tala um er stefna stjórnvalda í menntamálum og að menn setji ákveðnar greinar í forgang m.a. vegna mikillar þarfar. Það er auðvitað gott og blessað að ráðuneytið hafi markað stefnu en spurningin er hvernig henni verður fylgt eftir. Hvernig ætlar ríkisvaldið og sú ríkisstjórn sem hæstv. menntmrh. á sæti í að fylgja stefnunni eftir og sjá til þess að við stöndumst kröfur í þessum efnum og getum fjölgað fólki sem hefur menntun á þessu sviði? Ég veit reyndar að til stendur að koma á meistaranámi við Háskóla Íslands en það er bara byrjunin. Það þarf að taka miklu víðar á til að við getum mætt þeirri miklu eftirspurn og staðist kröfur framtíðarinnar.