Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:03:40 (2546)

1997-12-17 15:03:40# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:03]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín að taka til máls nú við 3. umr. þessa máls, þótt vissulega hafi það verið mikil vonbrigði að tillögur okkar stjórnarandstæðinga hafi allar verið felldar við 2. umr. í gær. Málið var að mínu mati fullrætt í menntmn. og ljóst að ekki var lengra komist í því að koma í veg fyrir þá ofstjórnartilhneigingu sem birtist í þessu frv. og nálgast það að vera samræming samræmingarinnar vegna óháð eðli viðkomandi háskóla. Ekki var lengra komist í því að koma í veg fyrir að nú eru engar lagalegar hindranir fyrir því að skólagjöld verði tekin upp í sérlögum eða skipulagsskrám einstakra skóla en öll sérlög um ríkisháskóla þarf að sjálfsögðu að samþykkja á Alþingi. Ég lít þess vegna svo á að sú umræða eigi eftir að eiga sér stað og hún verði tekin upp á Alþingi.

Vegna þeirrar ofstjórnartilhneigingar sem birtist í IV. kafla frv. vil ég minna á það sem ég sagði við 2. umr. að við erum ekki eina þjóðin sem horfist nú í augu við að háskólastigið mun vaxa að mikilvægi og umfangi á næstu áratugum vegna þess að ljóst þykir víðast hvar að ræktun mannauðsins mun hafa lykiláhrif á þróun atvinnulífs og hagkerfisins í náinni framtíð. Þetta á ekki síst við á Íslandi þar sem við höfum verið með óvenju einhæft atvinnulíf. Flestar nágrannaþjóðirnar í kringum okkur sjá því fyrir sér vaxandi háskólastig og um leið að til þurfi að koma meira fé frá skattborgurum og um leið hljóta kröfur af hendi stjórnvalda til að hafa áhrif á innra starf háskólanna að vaxa og hafa opinbert eftirlit með notkun fjármagnsins. Þegar ég segi innra starf háskólanna, þá er ég að tala um að það sé ekki óeðlileg krafa að opinberir aðilar vilji sjá til þess að skólastarfið sé að einhverju leyti í takt við þjóðfélagið. Þessi stjórnunartilhneiging og eftirlitsskylda hins opinbera birtist með ýmsum hætti í frv. og ætti ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með alþjóðlegri umræðu um þessi mál. Meðal annars birtist hún í því að ráðherra á að skipa rektor og ætlar að skipa tvo fulltrúa í háskólaráð. En, hæstv. forseti, ég vil ekki trúa því að nokkur íslenskur menntmrh. muni misnota vald sitt þannig að akademískt frelsi háskólans verði skert þannig að til skaða verði, en akademískt frelsi er að sjálfsögðu alger lífæð háskóla. Í háskólaráð fær ráðherra nú að skipa tvo fulltrúa af tíu, þannig að ljóst er að ráðherrann getur haft áhrif í háskólaráði en hann mun ekki hafa meiri hluta eða fulltrúar hans, jafnvel þótt þeir verði fyrst og fremst pólitískir eftirlitsaðilar, fremur en raunverulegir þjóðlífsfulltrúar, þó að þau mörk verði sjaldan skýr að mínu mati.

Það er of snemmt á þessu stigi að fullyrða um hversu mikil spennitreyja þessi lög munu reynast fyrir háskólana í landinu þar sem sérlög hafa enn ekki birst, fyrir utan sérlögin um Kennaraháskóla Íslands sem hér eru jafnframt til meðferðar. En þessi löggjöf mun ekki koma til framkvæmda fyrr en sérlög fyrir hvern skóla hafa verið samþykkt sem á að gerast innan tveggja ára. Í versta falli verður að endurskoða rammalögin um háskólastigið ef sérlög háskólanna geta ekki fallið að þessum ramma. Ég tel að ekki hafi verið lengra komist með þetta mál að sinni og ég mun sitja hjá við afgreiðslu málsins eins og fleiri aðilar úr stjórnarandstöðunni.