Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:09:30 (2547)

1997-12-17 15:09:30# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:09]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil við lok umræðunnar drepa á eitt mikilvægt atriði þessa frv. sem að sönnu hefur lítið borið á góma í annars langri og ítarlegri umræðu um rammalöggjöfina um háskóla. Þar er um að ræða 6. gr. frv. sem lýtur að inntökuskilyrðum og námskröfum og er stórt atriði í ljósi þess hvernig menn vilja skipa æðri menntun sess gagnvart öllum almenningi í landinu.

Nú er að sönnu um rammalöggjöf að ræða og í því ljósi ber að hafa skilning á því að texti frv. er að ýmsu leyti opinn og hann má túlka á ýmsa vegu og ætla má að sérlög um einstaka skóla kveði fastar að orði í þessum efnum. Mig rekur þó minni til þess að gildandi lög um Háskóla Íslands séu í stórum dráttum mjög á svipuðum nótum og 6. gr. um háskóla almennt. Mínar vangaveltur lúta fyrst og síðast að því, og þess vegna vil ég leita eftir því hjá hæstv. menntmrh., hvaða sýn hann hefur sjálfur á þá grein frv. Ég er þá einkum og sér í lagi að vísa til þeirrar setningar sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

,,Nemendur, sem hefja nám í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi, öðru sambærilegu námi ...`` Þetta er ákaflega skýrt en síðan heldur setningin áfram og hljóðar svo: ,,... eða búa yfir jafngildum þroska og þekkingu að mati stjórnar viðkomandi háskóla.`` Það er auðvitað matsatriði hverju sinni hvernig skuli meta jafngildan þroska og þekkingu til samræmis við stúdentspróf eða annað sambærilegt nám. Til að fá á þetta gleggri heildarmynd les ég áfram, með leyfi forseta, en í 2. mgr. stendur: ,,Tryggja skal að inntökuskilyrði í háskóla og námskröfur svari jafnan til þess sem krafist er í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis.`` Þessa 2. mgr. má lesa á tvo ólíka vegu og skiptir veigamiklu máli hvaða gleraugu sett eru upp. Er um að ræða þrengingu á 1. mgr. eða er um að ræða opnun á 1. mgr.? Í fljótu bragði gæti maður ætlað í ljósi 3. mgr. 6. gr. að hér væri um að ræða þrengingu og að skilaboð löggjafarvaldsins til háskólayfirvalda væru að skilgreina það mjög þröngt hver væri jafngildur þroski og þekking á við stúdentspróf eða sambærilegt próf, og einnig að námskröfur og inntökuskilyrði svari jafnan til þess sem gerist í viðurkenndum háskólum á sambærilegu sviði erlendis. En auðvitað er það ekki í öllum tilvikum svo heldur kannski þvert á móti, því það er þekkt, eftir því sem ég best veit og kann, að í háskólum í Skandinavíu m.a. nægir í sumum tilfellum eingöngu að uppfylla aldursskilyrði og þá er nálgun málsins sú að löggjafarvaldið í viðkomandi landi og háskólayfirvaldið lítur þannig til að fólk hafi safnað sér nægilegum þroska og nægilegri þekkingu í áranna rás með lífsins þátttöku, til að geta talist tækt að fá aðild að æðstu menntastofnunum viðkomandi þjóðar. Nú er ekki slíkum aldursskilyrðum til að dreifa í okkar löggjöf eða reglugerðum, eftir því sem ég þekki best. Það kann þó að vera í einhverjum einstökum skólum. En mér finnst það miklu máli skipta, hvaða skilaboð löggjafarsamkunda þjóðarinnar og æðsti yfirmaður menntamála, hæstv. menntmrh., hvaða sýn og skilning hann hefur á þessu ákvæði. Ég vil láta það koma alveg skýrt fram að af minni hálfu, af því ég þekki til nokkurra dæma af þessum toga, og þar hefur túlkun verið nokkuð mismunandi. Bæði hefur túlkunin verið allvíðsýn og menn hafa metið það með jákvæðum hætti þegar fólk hefur lýst sinni starfsreynslu, sem hefur auðvitað verið með ýmsu móti úti í atvinnulífinu eða í lífinu almennt, en einnig hefur maður heyrt af því dæmi og til mín hafa leitað einstaklingar sem hafa fengið heldur kuldalegar viðtökur, ef svo mætti segja, hjá einstökum deildum háskólans og viðkomandi aðilum verið sagt að sækja sér sitt stúdentspróf, jafnvel menn sem hafa haft með höndum stjórnunarstörf í hinum opinbera geira í samfélagi okkar.

[15:15]

Ég er svo sem ekki að gera um það tillögu á þessu stigi máls að þessi rammalöggjöf kveði fastar að orði eða eyði einhverjum hugsanlegum efa eða vafa í þessum efnum, en það skiptir miklu máli hvað löggjafarvaldið er hins vegar að meina. Hver er ætlunin hjá því, hver er skilningur þess þegar rammalöggjöf af þessum toga er sett fram og þó einkum og sér í lagi, hvaða sýn hæstv. menntmrh. hefur í þessum efnum, því 3. mgr. er alveg skýr. Þar er verið að gera háskólum það kleift að þrengja mjög möguleika fólks til aðgengis með sérstökum stöðuprófum eða inntökuprófum. Ég vil ekkert útiloka það að í vissum tilfellum geti það verið nauðsynlegt eða það verður ekki hjá því komist, oft og tíðum sökum fjárhagsvanda sem er auðvitað mjög slæmt út af fyrir sig en er óhjákvæmilegt á stundum. En 1. og 2. mgr. eru bæði í eðli sínu opnar en um leið lokaðar. Þess vegna vil ég ekki að þessari umræðu ljúki án þess að hæstv. menntmrh. fari yfir það hér í nokkrum orðum hvaða almennu sýn hann hefur á þetta. Mitt mat er að maður sem hefur verið virkur þátttakandi í lífi og starfi þessarar þjóðar um áratuga skeið, þó hann hafi ekki stúdentspróf að baki, sé fullkomlega gjaldgengur og hæfur til að setjast á skólabekk í Háskóla Íslands, nánast í allar deildir þar. Það er engum blöðum um það að fletta í mínum huga. Prófgráður eru ekki alfa og omega þeirra hluta í því sambandi.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, virðulegi forseti. Þetta er auðvitað ákveðið lykilatriði þessa frv. og segir talsvert um það hvaða sýn Alþingi Íslendinga hefur á gildi menntunar fólks á öllum aldri og möguleikum þess til að hefja nám. Ég kann þeim sem að því hafa staðið bestu þakkir fyrir átak í þessum efnum, endurmenntun og námskeiðahald af ýmsum toga. Háskóli Íslands hefur komið þar rösklega til skjalanna. En það svarar ekki til þess að menn geti fullmektugir sest á skólabekk í Háskóla Íslands. Menn þurfa að fá skýrari svör við þessu álitamáli en rammalöggjöfin segir okkur til um.